Chad Stahelski, sem ásamt David Leitch, er maðurinn á bakvið Keanu Reeves spennutryllinn John Wick 1 og 2, hefur skrifað undir samning um að leikstýra endurræsingu kvikmyndarinnar Hálendingsins. Það er Lionsgate sem framleiðir.
„Ég hef verið gríðarlega mikill aðdáandi upprunalegu myndarinnar, allt síðan ég sá hana þegar ég var í miðskóla,“ sagði Stahelski í samtali við The Hollywood Reporter. „Þetta eru miklar sögur af ódauðleika, ást og því hvað hver maður er, öllu pakkað inn í dulmagnaðan og spennandi seið.“
Upprunalega myndin frá árinu 1986 var með Christopher Lambert, Sean Connery og Clancy Brown í aðalhlutverkum, en þeir léku ódauðlega menn sem börðust sín á milli.
Lambert lék skoskan vígamann að nafni Connor MacLeod, Connery lék Egyptann Juan Sanchez Villa-Lobos Ramirez og Clancy var barbari þekktur undir nafninu Kurgan.
Gerðar voru allt í allt fjórar myndir, og þrjár sjónvarpsseríur.
Endurræsingin hefur verið í undirbúningi síðan árið 2008 þegar Summit, sem er í eigu Lionsgate, keypti kvikmyndaréttinn.
Stahelski vann sem áhættuleikari og var tvífari Keanu Reeves í Matrix myndunum, áður en hann stofnaði ásamt Leitch, áhættuleik-fyrirtækið 87Eleven.
Leitch hefur verið ráðinn til að leikstýra Deadpool 2, eins og við sögðum frá á dögunum.