Nicholas Hoult er bæði blár og dýrslegur á nýrri mynd sem Bryan Singer, leikstjóri X-men: Days of Future Past, setti á Twitter síðu sína í dag. Um er að ræða fyrstu myndina sem birtist af Hault í gervi Beast í myndinni, eða Dýra, í lauslegri íslenskri þýðingu.
X-Men: Days of Future Past er framhald hinnar vinsælu X-Men: First Class frá árinu 2011, sem þénaði 353 milljónir Bandaríkjadala á heimsvísu.
Á twitter síðunni segir Singer: „Mörg skrímsli eru í mannslíki; af tvennu þá er betra að vera með mannshjarta og útlit skrímslis.“
( Á vefsíðunni The Wrap er bent á að texti Singers er tilvitnun í Beauty and the Beast eða Fríðu og dýrið, eftir Jeanne Marie Le Prince de Beaumont.)
Í X-Men: Days of Future Past leika auk Hault, þau Jennifer Lawrence, Michael Fassbender og James McAvoy ásamt leikurum úr fyrri X-Men myndum, þeim Patrick Stewart, Ian McKellen og Halle Berry m.a.
X-Men: Days of Future Past kemur í bíó 18. júlí, 2014.