Tökur á Deadpool 2, framhaldi ofursmellsins Deadpool frá því á síðasta ári, hófust fyrr í þessum mánuði. Leikarahópurinn er þó enn að þéttast, og nýjasti meðlimurinn er The Hunt for the Wilderpeople leikarinn Julian Dennison, en leikstjóri myndarinnar, Taika Waititi, deildi mynd af leikaranum unga á hestbaki ofurhetjunnar, með staðfestingu á ráðningunni.
Ekkert hefur verið látið uppi um hvaða hlutverk leikarinn fer með.
“Aldrei í mínum “wilderpeoplest” draumum hefði ég getað ímyndað mér að þessi ljósmynd væri til. En …Júúúú @JulianDennison @VancityReynolds #SkuxLife“
Myllumerkið #SkuxLife er tilvísun í slanguryrði sem er notað í The Hunt for the Wilderpeople, og þýðir það sama í Nýja Sjálandi og bandaríska slangrið #ThugLife.
Myndin virðist vera háðsádeila á alræmda ljósmynd úr Star Wars: The Last Jedi, þar sem Mark Hamill sést benda á eitthvað úti í buskanum, á sama tíma og hann er borinn á hestbaki af Daisy Ridley.
Aðrir helstu leikarar í Deadpool 2 eru Zazie Beetz sem Domino, Josh Brolin sem Cable og Jack Kesy sem sagt er að leiki Marvel illmennið Black Tom. Leikarar sem snúa aftur úr fyrstu myndinni eru T.J. Miller (Weasel), Morena Baccarin (Vanessa), Brianna Hildebrand (Negasonic Teenage Warhead), Leslie Uggams (Blind Al) og Karan Soni (Dopinder).
Leikstjóri er David Leitch (John Wick, Atomic Blonde) sem tekur við af Tim Miller, sem hætti við verkefnið vegna listræns ágreinings við aðalstjörnuna, Ryan Reynolds, sem leikur Deadpool.
Sagt er að ágreiningurinn hafi meðal annars snúist um ráðningu í hlutverk Cable, en Reynolds vildi ráða hinn 51 árs gamla Kyle Chandler, en Miller hafnaði því.
Deadpool 2 er væntanleg í bíó 1. Júní 2018.
Never in my wilderpeoplest dreams would I have imagined this picture existing. But…. Yessss. @JulianDennison @VancityReynolds #SkuxLife pic.twitter.com/7KUifBrdxg
— Taika Waititi (@TaikaWaititi) June 28, 2017