Nýjar frestanir í ljósi aukinna smita

Frumsýning nýjustu kvikmyndarinnar frá Christopher Nolan, TENET, hefur verið færð aftar um nokkrar vikur og útlit er fyrir því að hið sama muni gerast með Mulan. Áætlað var að frumsýna báðar stórmyndirnar undir lok næstkomandi júlímánaðar en í ljósi aukninga á COVID-smitum vestanhafs er ólíklegt að grænt ljós verði gefið á opnanir meirihluta kvikmyndahúsa í Bandaríkjunum á komandi vikum.

Sérfræðingar hjá Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna, CDC, telja að hátt í 20 milljónir Bandaríkjamanna hafi sýkst af veirunni. Tæplega tvær og hálf milljón hafa greinst með með smit í Bandaríkjunum, samkvæmt opinberum tölum, þar af hafa hátt í 125 þúsund látið lífið.

Nú er gert ráð fyrir að TENET komi í almennar sýningar þann 12. ágúst. Í yfirlýsingu frá kvikmyndaverinu Warner Bros. segir að öllu máli skiptir að komandi frumsýningaráætlun verði sveigjanleg, að framleiðendur geri sér grein fyrir því að útgáfa myndarinnar sé óhefðbundin. TENET verður þó óhjákvæmilega á meðal fyrstu stórmyndanna til að lenda þegar flest bíóin opna á ný, því er útilokað að myndin verði gefin beint út á streymi.

Um er að ræða dýrustu mynd Nolans til þessa, sem kostaði um 205 milljónir Bandaríkjadala í framleiðslu – en með markaðskostnaði og fleiru þarf myndin að hala inn hátt í 500 milljónir dala til að lenda ekki í mínus.

Einnig stóð til hjá Warner Bros. að sýna (10 ára) afmælisútgáfu spennumyndarinnar Inception – þar sem sérstök kitla fyrir TENET fylgir með – en sú útgáfa færist einnig. Þessi sama afmælisútgáfa var upphaflega dagsett á Íslandi þann 17. júlí en færist til ágúst.

Ekki hefur fengið staðfest hvort að Mulan verði einnig slegin á frest, en samkvæmt plani er frumsýningardagur hennar 24. júlí næstkomandi.

En lítum nú á björtu hliðarnar. Íslendingar geta í það minnsta séð þessa senu í kvikmyndahúsum um þessar mundir