Ný Star Wars-mynd í bígerð frá Taika Waititi

Á þessum degi, hinum alþjóðlega Star Wars-degi þann 4. maí, tilkynnti Lucasfilm að glæný Stjörnustríðsmynd væri í vinnslu frá engum öðrum en nýsjálenska grínaranum Taika Waititi.

Af viðbrögðum netheima að dæma eru aðdáendur hæstánægðir með þessar fregnir en eins og margir vita leikstýrði hann lokaþætti fyrstu seríu The Mandalorian fyrir Disney+. Fer grínarinn einnig með hlutverk drápsvélmennisins IG-11 í þáttaröðinni.

Waititi mun bæði leikstýra nýju (ónefndu) Star Wars-myndinni og skrifa handritið ásamt Krysty Wilson-Cairns, sem skrifaði meðal annars handritið að stríðsmyndinni 1917.

Waititi hefur síðustu mánuði unnið hörðum höndum að undirbúningi Marvel-myndarinnar Thor: Love and Thunder. Waititi hefur verið heldur eftirsóttur undanfarinn ár og hafa myndirnar hans fallið vel í kramið hjá flestum áhorfendum. Fyrr á árinu hreppti hann Óskarsstyttu fyrir handrit kvikmyndarinnar Jojo Rabbit, en þar áður gerði hann Thor: Ragnarok, sem er tvímælalaust af flestum talin vera ein af hressari og skemmtilegri Marvel-myndum síðari ára.

Ekki er enn búið að gefa upp dagsetningu fyrir tilvonandi Star Wars-mynd kappans en áður höfðu stórrisarnir hjá Disney sagt að nýr kafli líti dagsins ljós í kringum jólin árið 2022. Hvort kórónuveiran hafi áhrif á þetta fyrirkomulag á enn eftir að koma í ljós.