Frumsýningar standa nú yfir á vefseríunni Svarti skafrenningurinn, en það er önnur vefsería kvikmyndafyrirtækisins Fenrir films. Tveir þættir af þremur hafa nú verið frumsýndir, en frumsýningar eru ávallt á föstudögum á netinu.
Svarti skafrenningurinn er ofurhetjumynd með Hollywood ívafi, þar sem ofurhetjan Svarti skafrenningurinn slæst við illmennið Fésbókarann, sem dregur nafn sitt af Fésbókinni, enda þolir hann ekki þegar fólk sem hann býður á viðburð í gegnum Fésbókina, smellir á Maybe attending.
Átta manns á aldrinum 22 – 29 ára standa að Fenrir films. Guðni Líndal Benediktsson ( sjá meðfylgjandi mynd af Guðna í hlutverki Fésbókarans) segir að fyrirtækið hafi verið stofnað fyrir um ári síðan en liðsmenn hópsins eru flestir útskrifaðir úr Kvikmyndaskóla Íslands. Guðni segir að þeir hafi ákveðið að hefja framleiðslu á eigin efni þegar rekstur Kvikmyndaskólans fór í uppnám, og framtíð hans sömuleiðis í fyrra. „Við ákváðum að reyna að gera eitthvað í staðinn fyrir að bíða eftir því að úr þessu rættist. Við fengum lánaðar græjur hjá skólanum og gerðum vefseríuna Ævintýri á einkamál. Við skutum hana á fimm dögum, og eyddum svo löngum tíma í eftirvinnslu. Við settum hana svo á netið síðasta vetur. Sú sería var í þremur þáttum og hver þeirra var um 10 mínútur.“
Erfitt að ná í gegn
Guðni segir að það hafi ekki gengið vel að ná athygli fjölmiðla með vefseríuna, þó þeir hafi reynt að kynna hana eins víða og mögulegt var. „Það virðist vera erfitt að komst í gegn, fyrst þetta er ekki tónlistarmyndband og það er ekkert frægt fólk í þáttunum. Við gerðum í kjölfarið nokkrar stuttmyndir, og þær fengu fleiri áhorf eftir því sem þær voru styttri. Stuttmyndin Til hamingju gekk best, og fékk talvert af heimsóknum frá Bandaríkjunum, enda er ekkert tal í henni.“
Hann segir að þar á eftir hafi hópurinn farið í að taka upp Svarta skafrenninginn. „Við tókum hann upp í desember og janúar sl. á 11 dögum og undirbjuggum hann miklu betur en annað sem við höfðum gert. Í þáttunum er fullt af slagsmálum og öðru undir áhrifum frá Hollywood, en við viljum meina að við leyfum okkur að vera meira innblásin af Hollywood en flestir aðrir íslenskir kvikmyndagerðarmenn. Okkur finnst að það eigi að vera vel skipulögð slagsmál, ofurhetjur, létt hallærisleg samtöl, grín í anda Naked Gun, og svoleiðis pakki. Við höfum ekki séð neitt svona á Íslandi,“ segir Guðni og bendir á að ýmsir erlendir kvikmyndagerðarmenn hafi náð langt með stuttmyndum af þessari tegund á netinu, eins og Freddy Wong til dæmis. „Við teljum að það sé hljómgrunnur fyrir svona efni hér hjá ungu fólki í dag.“
Fullir af kvikmyndatilvitnunum
Guðni segir að það sé markmið hópsins að gera fleiri vefseríur og reyna að koma þeim í tísku hér á landi. „Og helst að fá kaup fyrir,“ segir Guðni og hlær, en Svarti skafrenningurinn var allur gerður fyrir nær engan pening.
Guðni segir að þættirnir séu fullir af tilvitnunum í ýmsar kvikmyndir, eins og t.d. Spider Man ( þegar sjónin batnar þegar Svarti skafrenningurinn fær ofurkraftana ). „Þáttur nr. 2 er tilvitnun í Dark Knight út í gegn. Í þætti 3 erum við síðan með nær alla James Bond endana sameinaða. Við berum virðingu fyrir kvikmyndunum sem við ólumst upp með. Hollywood fékk okkur til að fara út í kvikmyndagerð.“
Hér fyrir neðan er 1. Þáttur Svarta skafrenningsins. Smellið síðan hér til að skoða youtube síðu Fenrir films þar sem hægt er að skoða alla þætti Fenrir films sem minnst er á í spjallinu við Guðna.
Svarti skafrenningurinn er líka hér, á tivi.is, og annar þáttur er hér á sömu síðu.