Því miður lítur helst út fyrir að söngfuglinn og sílíkonbomban Britney Spears ætli virkilega að láta verða af því að leika aðalhlutverkið í nýrri mynd, enda heppnaðist Crossroads svona líka snilldarlega. Nefnist hún 221bCause, sem er einmitt skemmtilegur orðaleikur í kringum heimilisfang hins heimsfræga spæjara Sherlock Holmes. Í myndinni leikur hún unga, en jafnframt glæsilega stúlku sem vinnur á ferðaskrifstofu sem er staðsett einmitt í Baker Street 221B í London. Þangað fara að berast bréf stíluð á Sherlock Holmes, og fer hún að svara þeim og þykist vera spæjarinn. Allt þetta leiðir hana til New York þar sem hún reynir að bjarga syni forsetans?! Framleiðendur myndarinnar eru tilbúnir til þess að vinna í kringum hina flóknu dagskrá stjörnunnar, en vilja þó að myndin verði tilbúin fyrir forsetakosningarnar árið 2004.

