Nú geturðu Hockey-pulverað poppið þitt!

Þegar kemur að bíóferðum þá er í flestra hugum samasemmerki á milli þess að horfa á góða bíómynd og borða poppkorn. Síðustu árin hafa íslensk bíóhús boðið fólki upp á að salta poppið sitt aukalega með bíópoppsalti, og hafa flest ef ekki öll bíóhúsin haft saltið í linum kókglösum uppi á afgreiðsluborðunum og skorið svo gat í plastlokið ofaná til að menn geti hrist saltið út á poppið.  Jafn ánægjulegt og það nú er að geta saltað poppið sitt aukalega, þá hafa menn klórað sér í hausnum yfir því afhverju ekki er hægt að bjóða upp á betri stauka til að hrista saltið úr – nú eða bjóða upp á fleiri valmöguleika í salti eða öðru „áleggi“.

salt

Nú á dögunum gerðu Sambíóin nokkra bragabót á hvorutveggja. Ekki aðeins kynntu þau til sögunnar handhæga saltstauka, heldur er nú farið að bjóða upp á Hockey-pulver salt út á poppið, en Hockey-pulver hefur notið sívaxandi vinsælda síðustu misserin sem nammi á ís – jafnvel svo mikilla vinsælda að emmessís er búinn að búa til sérstakan Hockey-pulver ís! – en það er önnur saga …

Kvikmyndir.is er ekki enn búin að prófa Hockey-pulver popp, en mun gera það strax í næstu ferð í Sambíóin, nú eða í önnur bíó, ef þau feta í fótspor Sambíófólks, eða brydda upp á enn annarri nýjung – þetta er klárlega eitthvað sem bíóin geta keppt um hylli poppsvangra bíógesta með!