Eins og fólk hefur eflaust tekið eftir hefur hver stórmyndin á eftir annarri verið frestuð eða tekin af frumsýningarplani endanlega vegna COVID-19.
Sumar kvikmyndir verða meira að segja gefnar út á streymisveitum (Trolls World Tour, Emma og The Hunt á meðal annarra) og hefur heimaútgáfu margra verið flýtt (Frozen II). Á komandi vikum stóð upphaflega til að frumsýna myndir eins og A Quiet Place: Part II, Mulan, No Time to Die, Fast & Furious 9 og ýmsar fleiri en mikil óvissa hefur ríkt (eins og með margt annað í faraldrinum) yfir bíómyndum sumarsins.
Marvel-myndin Black Widow, með Scarlett Johansson (loksins) í aðalhlutverki, átti að vera fyrsta stórmynd bíósumarsins. Þetta hefur verið föst venja Marvel-mynda síðustu árin en Disney-samsteypan hefur nú tilkynnt enn eina frestunina. Ekki er þó búið að gefa upp nýjan frumsýningardag, en áður stóð til að gefa hana út 24. apríl í Evrópu og viku seinna í Bandaríkjunum.
Black Widow er sögð kosta í kringum 200 milljónir Bandaríkjadala og getur Disney þar af leiðandi búist við talsverðu tapi. Þó sé meira en öruggt að myndin verði njóti gífurlegra vinsælda þegar áhorfendur fá að lokum tækifæri til að sjá hana. Þetta er 24. myndin frá Marvel stúdíóinu og er sögð gerast stuttu eftir atburði Captain America: Civil War. Auk Johansson fara þau Florence Pugh, David Harbour, William Hurt, Ray Winstone og Rachel Weisz með stór hlutverk í myndinni.
Þá beinist sviðsljósið næst að Wonder Woman (5. júní), eða Artemis Fowl (29. maí).