Nostalgískur Jon Hamm

Jon Hamm, Catherine Keener, Bruce Dern og Ellen Burstyn fara með aðalhlutverkin í kvikmyndinni Nostalgia. Myndin verður frumsýnd þann 16. febrúar í Bandaríkjunum og eiga áhorfendur von á því að þerra tárin í kvikmyndahúsum ef marka má nýja stiklu úr myndinni.

Eins of flestir vita þá er nostalgía hugtak sem merkir ljúfsáran söknuð til fyrri tíma eða heimþrá. Myndin einblínir einmitt á þá hluti, staði og þær minningar sem við eigum í lífinu. Fólkið í myndinni eiga það öll sameiginlegt að þau halda í þá hluti eða þá staði sem gefa þeim kærar minningar úr fortíðinni.

Það er Mark Pellington sem leikstýrir myndinni en hann er hvað þekktastur fyrir myndir á borð við Arlington Road og The Mothman Prophecies. Alex Ross Perry skrifar myndina og hefur hann áður skrifað myndirnar Queen of Earth og Listen Up Philip.

Nýjustu stikluna úr myndinni má sjá í spilaranum hér að neðan.