Bandaríski kvikmyndaleikarinn Shia LaBeouf, 26 ára, hefur að öllum líkindum leikið í sinni síðustu Transformers mynd, en þær eru nú orðnar þrjár talsins. Í samtali við AP fréttastofuna sagði leikarinn að hann hefði ekki meira að gefa af sér í hlutverki Sam Witwicky.
„Nú er komið nóg,“ sagði hann við fréttastofuna, þegar hún tók viðtal við leikarann við frumsýninguTransformers: Dark of the Moon á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Moskvu í Rússlandi.
„Ég er viss um að það verða gerðar fleiri svona myndir. Þetta er ennþá mjög vinsæl sería,“ bætti LaBeouf við.
Hann bætti við: „Ég elska að gera þær ( myndirnar ). Mér þykir vænt um starfsliðið, og Michael ( Bay ). Mér þykir vænt um meðleikara mína og Sam… en ég hef ekki meira fram að færa, og ég held að það sé ekkert hægt að fara lengra með Sam.“
Fremur nördaleg persóna LeBeouf, Sam, hjálpaði geimveruvélmenni af gerðinni, the Transformers, að vinna sigur á annarri tegund geimveruvélmenna, hinum illu Decepticons, í bardaga þeirra á jörðinni.
Myndinni er leikstýrt af Michael Bay, og ásamt LeBeouf leika í myndinni þau Patrick Dempsey, Frances McDormand, John Malkovich og Victoria’s Secret fyrirsætan Rosie Huntington-Whitely. Paramount Pictures segja að myndin hafi þénað 37,3 milljónir Bandaríkjadala á miðvikudaginn, þegar myndin var frumsýnd í Bandaríkjunum. Það eru 40% minni tekjur en síðasta Transformers, Revenge of the Fallen, fékk á sínum frumsýningardegi.
LaBeouf fór í samtalinu við AP fréttastofuna yfir hlutverk Sams í þriðju myndinni: „Það er eiginlega öllum orðið sama um Sam. Hann hefur engan tilgang. Hann er búinn að bjarga jörðinni tvisvar og það er að vissu leyti búið að ýta honum til hliðar. Þetta er gaur sem var vanur að gera sig gildandi með samskiptum sínum við vélmennin, en vélmennin þurfa ekki lengur á honum að halda,“ sagði leikarinn. „Í þessari mynd er hann í raun veikastur ef maður horfir á allar þrjár myndirnar, en svo vex honum ásmegin er líður á myndina.“
Auk þess sem LaBeouf hefur leikið í Transformers þríleiknum þá lék hann aðalhlutverk í myndinni Wall Street: Money Never Sleeps árið 2010, Eagle Eye árið 2008 og Disturbia árið 2007.