Natalie Portman hefur í nógu að snúast um þessar mundir. Hún er í viðræðum um að leika ríkisstarfsmann sem rannsakar dularfull fyrirbæri í mynd sem er byggð á vísindaskáldsögu Jeff VanderMeer, Annihilation. Leikstjóri verður Alex Garland, sem síðast gerði Ex Machina sem er væntanleg í bíó.
Samkvæmt Variety fjallar Annihilation, um fjórar konur sem eru sendar á óþekktan stað sem kallast Area X þar sem undarlegir hlutir hafa gerst.
Portman hefur einnig tekið að sér hlutverk hæstaréttardómarans Ruth Bader Ginsburg, sem var önnur konan til að gegna starfinu, í myndinni On the Basis of Sex.
Þriðja mynd Portman, Jane Got A Gun, er svo loksins á leiðinni í bíó í haust. Breytingar voru gerðar á leikarahópnum og fleirum sem tengdust myndinni sem varð til þess að henni seinkaði. Samkvæmt leikaranum Joel Edgerton gengu tökurnar erfiðlega fyrir sig.