Netflix vildi óska að það ætti The Great British Bake Off

Netflix hefur á síðustu fimm árum orðið leiðandi streymisveita í sjónvarpi um allan heim, og framleiðendur efnis snúa sér gjarnan fyrst þangað þegar kemur að því að selja efni. Það er hinsvegar ein sjónvarpssería sem Netflix tókst ekki að kaupa –  The Great British Bake Off.

bake-off

Dagskrárstjóri Netflix, Ted Sarandos, hefur lýst yfir vonbrigðum sínum með þetta mál í samtali við breska blaðið The Telegraph. „Ég vildi að við hefðum getað keypt Bake Off.  Þátturinn seldist hratt, en við hreyfðum okkur hægt. Þátturinn er mjög vinsæll á Netflix, og út um allt, þannig að við hefðum klárlega verið áhugasöm.“

The Great British Bake Off, sem snýst um keppni tólf áhugabakara um að titilinn besti bakari í Bretlandi, komst í fjölmiðla fyrr á þessu ári þegar Channel 4 sjónvarpsstöðin keypti þáttinn, eftir að samningur Love Production við BBC rann út. Eftir kaupin hurfu dómari og stjórnendur þáttarins á braut, þau Mary Berry dómari,  og Mel Giedroyc og Sue Perkins, þáttastjórnendur.  Óvíst er hver tekur við af þeim tveimur síðartöldu, en dómarinn Paul Hollywood mun snúa aftur í dómgæsluna.