Bryan Singer, leikstjóri ofurhetjumyndarinnar X-Men: Days of Future Past uppljóstraði um nokkur ný smáatriði varðandi myndina í spurningatíma ( Q & A ) á netinu í gær.
Meðal þess sem hann sagði var að myndin hefði myrkari undirtón en fyrri myndir.
„Þó það sé fullt af húmor í myndinni,“ sagði Singer, „þá er tónninn heilt yfir aðeins dekkri en fyrri myndir, einkum vegna alls sem er í húfi.“
Singer hélt áfram og lýsti persónunni Mystique sem mun harðgerari, og meira hörkutóli en hún var í X-Men: First Class.
Spurður að því hvort hann sæi fyrir sér fleiri persónur sem ættu eftir að koma við sögu í X-Men myndum, sagði hann svo vera. „Gambit, Deadpool, og nokkrir aðrir sem ég ætti ekki að tala um,“ var svar Singers.
Helstu leikarar í X-Men: Days of Future Past eru James McAvoy, Jennifer Lawrence, Michael Fassbender og Hugh Jackman.
Myndin verður frumsýnd í maí á næsta ári.
Í dag er svo væntanleg fyrsta stiklan úr myndinni, sem hægt er að nálgast hér. Við munum að sjálfsögðu birta hana hér á kvikmyndir.is einnig síðar í dag.