Náðu í appið
Bönnuð innan 12 áraÍ myndinni er sýnd nekt og/eða þar er að finna kynferðislega hegðun eða tilvísanir

X-Men: First Class 2011

(X-Men 5)

Aðgengilegt á Íslandi

Frumsýnd: 1. júní 2011

Their powers would make them different. But destiny would make them allies.

132 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 86% Critics
The Movies database einkunn 65
/100

X-Men First Class greinir frá byrjun hinna epísku X-Men sagna og afhjúpar áður leyndar sögur á bakvið fræga atburði í mannkynssögunni. Áður en hinir stökkbreyttu opinberuðu tilvist sína og áður en Charles Xavier varð Professor X og Erik Lehnsherr varð Magneto voru þeir tveir ungir menn við það að uppgötva krafta sína í fyrsta sinn. Við kynnumst þessum... Lesa meira

X-Men First Class greinir frá byrjun hinna epísku X-Men sagna og afhjúpar áður leyndar sögur á bakvið fræga atburði í mannkynssögunni. Áður en hinir stökkbreyttu opinberuðu tilvist sína og áður en Charles Xavier varð Professor X og Erik Lehnsherr varð Magneto voru þeir tveir ungir menn við það að uppgötva krafta sína í fyrsta sinn. Við kynnumst þessum ungu mönnum áður en hugsjónir þeirra hafa sundrað þeim. Charles er hrokafullur nemandi við Oxford háskólann þegar hann kynnist skólafélaga sínum Erik. Charles hefur tekið doktorspróf í guðfræði og heimspeki en Erik hefur hlotið styrk til að nema við Oxford vegna tungumálakunnáttu sinnar. Það er óhætt að segja að bakgrunnur þeirra sé eins ólíkur og hugsast getur, Charles er af ríkri breskri ætt en foreldrar Eriks dóu í gasklefum gyðinga. En andstæður hrífast oft hver að annarri. Við vinnu sína með öðrum stökkbreyttum einstaklingum komast þeir að því hvar ágreiningur þeirra liggur í raun og stríðið milli bræðralags Magneto og X-Manna Xaviers hefst.... minna

Aðalleikarar

Upphaf hinna stökkbreyttu
Aukin tækni í kvikmyndaiðnaðinum færir okkur sífellt lengra inn í ævintýraveröld sem áður var okkur aðeins kunnug í teiknimyndablöðum síðustu aldar.

Þessi mynd sýnir okkur upphafið og kynnir okkur fyrir helstu ofurhetjunum úr fyrri X-men kvikmyndunum. Persónusköpun og uppbygging myndarinnar er skemmtileg og vel gerð. Þeir sem hafa séð hinar X-men myndirnar, fá nú að sjá hvernig þetta byrjaði allt saman. Fylgst er með hvernig hinir ungu stökkbreyttu uppgötva óvenjulega hæfileika sína, taka höndum saman undir stjórn Xaviers, gegn öðrum stökkbreyttum mönnum undir stjórn hins illa prófessors Shaw, sem vinnur að því að koma skelfilegum áformum sínum í framkvæmd. Sögusviðið nær allt aftur til fangabúða nasista í Póllandi í lok seinna stríðs. Erik er knúinn áfram af hatri og hefndarhug á meðan Charles Xavier lætur göfugar hugsjónir sýnar ráða ferðinni í baráttu milli góðs og ills. Mannkynssögunni er fléttað skemmtilega inn í myndina sem gerist að mestu leiti í upphafi 7. áratugarins, þar sem Kennedy er forseti, kalt stríð geisar á milli USA og Sovétríkjanna. Sumt minnir talsvert á James Bond mynd. Stuðst er við Kúbudeiluna sem vettvang aðal átakanna á milli góðs og ills. Heimurinn er nokkur sekúndubrot frá tortímingu á meðan hinir stökkbreyttu X-menn berjast hatrammlega með öllum sýnum fjölbreyttu ofurkröftum og klækjum.

Kvikmyndatakan og klippingarnar skila hasarnum alla leið. Sjónrænar brellur og tölvugrafík er af dýrari gerðinni og sómir sér vel í þessu umhverfi 7. áratugarins. Hljóðrásin er flott og kvikmyndatónlistinn sjálf gefur fína fyllingu og hughrif á réttum stöðum. Persónusköpunin er að skila sér og helstu leikarnir eru vel kunnuglegir þó þeir séu flestir af yngri kynslóðinni. James McAvoy og Michael Fassbender eru samt sennilega þekktastir ásamt flottum ungum leikkonum eins og Rose Byrne (Knowing), Jennifer Lawrence (Oscars-tilnefnd fyrir Winter’s Bone) og January Jones úr Mad men sjónvarpsþáttunum. Sögusagnir segja að Vaughan leikstjóri hafi ekki eingöngu leikstýrt January Jones.

Flott mynd, heldur manni við efnið allan tíman með góðri keyrslu. Heilsteypt handrit og leikstjórn er að skila hörku hasar, sjónarspili og brellum en um leið vel útfærðri bíómynd.

Leikstjórinn Matthew Vaughn er fertugur Englendingur sem leikstýrt hefur myndunum Layer Cake, Kick-Ass og Stardust en aðallega fengist við að framleiða kvikmyndir með besta vini sínum, leikstjóranum Guy Ritchie (fyrverandi maður Madonnu). Vaughan er kvæntur ofur-fyrirsætunni Claudiu Schiffer.

Handritshöfundarnir Ashley Miller og Zack Stentz eru þekktir fyrir að skrifa sjónvarpsþætti byggða á vísindaskáldsögum og nú síðast fyrir handrit af ofurhetjumyndinni Thor.
Framleiðandinn er Bryan Singer, sá sem leikstýrði fyrstu tveimur X-men myndunum.
Dr. X, Charles Xavier er leikinn af hinum skoska James McAvoy (Atonement og The Last King of Scotland)
Erik Lehnsherr (Magneto) er leikinn af hinum þýska Michael Fassbender (Hunger, Centurion, Inglourious basterds)
Professor Sebastian Shaw er leikinn af Kevin Bacon (Footloose, Mystic River)
Jennifer Lawrence leikur Raven Darkholme (Mystique), blái hamskiptingurinn.
January Jones leikur demantagelluna Emmu Frost með sína ofurkrafta.
Rose Byrne leikur Moira McTaggart hjá CIA.

160 milljón US dollara mynd frá 20th Century Fox.
http://www.x-menfirstclassmovie.com/
Enskt tal með íslenskum texta. 132 mín á lengd. júní 2011
Sýnd í Smárabíó, Borgarbíó, Laugarásbíó og SAMbíóum Egilshöll.

Einkunn: XXXX (4 af 5)
siggi@svipan.is
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
frábær mynd
X2 hefur alltaf verið ein af mínum uppáhalds myndum. og þegar ég sá að Bryan singer væri kominn aftur varð ég smá vongóður um að þetta ætti eftir að verða góð mynd og þegar að ég sá að Matthew Vaughn átti að leikstýra varð ég viss um að X-men:first class átti eftir að vera frábær og það var hún, vá hvað þessi mynd er góð, þegar ég kom útur bíóhúsinu leið mér alls ekki eins og tveir tímar hefðu liðið. Þessi mynd hefur allt saman, góðan söguþráð, góða tónlist, frábær leikur, djöfull virka Fassbender og McAvoy vel sem Magneto og professor X. atriðin með þeim eru geðveik þegar þeir tveir eru saman á skjá. ef þú ert að leita að frábærri ofurhetjumynd þá er þetta hún. ég mæli eindregið með henni. skyldusýn fyrir alla x-men aðdáendur.nú bíð ég bara eftir næstu x-men mynd frá Singer og Vaughn
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Betri en X-Men 1
X-men: first class er forsaga X-Men myndanna byggðum á Marvel seríunni sem slógu í gegn fyrir nokkrum árum. Í þetta sinn er sagt frá því hvernig fyrsta stökkbreytta fólkið kynntist og myndaði fyrstu X-men klíkuna og það tekst alveg frábærlega.

Ég var ekkert rosalega spennt fyrir þessari mynd en eftir flottan trailer langaði mér samt að sjá hana, ég var að búast við svona sex-sjöu en ég fékk í staðinn háa áttu. X Men first class er vel gerð, leggur mikið í persónusköpun eins og margir hafa nefnt og það margborgar sig. Svo er það ekki verra að hafa fyndna brandara og cameo inn á milli.
Tónlistin er mjög góð, minnir reyndar frekar mikið á Inception og myndatakan er sömuleiðis flott. Leikurinn er mjög sannfærandi og það er mjög skemmtilegt að sjá nýju kynslóðina í Hollywood standa sig.

Það eru engir stórir gallar í þessari mynd, hún er smá tíma að koma sér í gírinn en eftir hlé er myndin algjör snilld.
X-Men er ein af sumarmyndunum sem á að sjá! Allir Marvel áhuga-menn munu allaveganna njóta hennar í botn og ekki vera hissa á því ef kemur framhald af þessari.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
First Class
Ég var að búast við góðri mynd en hún flaug langt frammúr væntingum, virkilega vönduð og allt öðruvísi ofurhetjumynd. Ekki þessi dæmigerða afþreyingamynd þarsem hasar er nr. 1 og 2 og persónusköpun er nr 3. Virkilega bara Bravo, hún er svo vel heppnuð og áhugaverð, maður fær allt aðra sýn á Magneto og Professor X. Maður skilur þá mikið betur ef maður hugsar uti hinar X-Men myndirnar.

Bacon er mjög góður sem illmennið en samt sem áður frekar skrítið að heyra hann tala svona mikla þýsku, en það er allt í góðu. Michael Fassbender sem Magneto er ótrulegur! hann nær honum svo vel og gerir þennan áhugaverða karakter svo miklu áhugaverðari, kraftmeiri og svalann, hans sjónarhorn á hlutunum sem fær mann til að skilja hann en maður stendur samt alltaf með James McAvoy sem Charles Xavier, þó það sé erfitt val, var byrjaður að hallast að Magneto, en Nei. Að sjá hvernig vinasambandið þeirra þroskast er frábært, maður sér líka virðinguna á milli þeirra. Báðir komnir úr svart og hvítu umhverfi sem mætast til að berjast við illmennið. McAvoy er líka mjög hlýr og góður gaur sem Xavier, nær honum virkilega vel. Ég get ekki fundið aðra leikara sem hefðu staðið sig betur að leika þessa tvo aðalkaraktera.

Gef henni 9/10 - P.S. Mig langar í ofurkrafta!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Persónusköpun fyrst, hasarinn svo
Miðað við reglulegt metnaðarleysi Fox-mynda síðustu ár sem hefur mikið bitnað á gæðum undanfarinna X-Men-mynda var ég farinn að halda að ég ætti ekki eftir að sjá aðra góða mynd í þessari seríu. Að minnsta kosti ekki á næstunni og sérstaklega eftir að Darren Aronofsky hætti við Wolverine 2 (allt snillingunum hjá Fox að þakka. Þeir elska að hemla á þeim sem vilja prófa eitthvað nýtt og spennandi). Besta ákvörðunin í langan tíma hjá þessu stúdiói var að fá þá Bryan Singer og Matthew Vaughn til að snúa aftur til leiks. Þetta sannar að það er oftast betra að fá myndasögunördanna til þess að sjá um hlutina sjálfir.

Singer, eins og flestir bíógúrúar vita, leikstýrði fyrstu tveimur X-Men-myndunum (ásamt Superman Returns) og Vaughn gaf okkur blauta drauminn Kick-Ass í fyrra svo eitthvað sé nefnt. Báðir þessir menn voru fengnir til að vinna að þriðju myndinni í seríunni en á endanum sýndu þeir Fox bara miðfingurinn og fóru. Nú eru þeir komnir aftur (Vaughn leikstýrir, Singer framleiðir, báðir vinna að handritinu) og greinilega með fullt vald yfir verkinu. Ég á allavega bágt með að trúa öðru. X-Men: First Class er of góð mynd til að vera einungis unnin á Fox-færibandinu.

Ef það væri ekki fyrir eina lykilsenu í byrjun sem missir rétt svo marks (hint: krakki öskrar) og nokkra aðra smágalla þá væri þessi mynd betri en X2. Þetta er ekki bara poppkornsmynd heldur alvöru kvikmynd. Mjög vönduð, skörp og með mikla sál. Af öllum fimm myndum seríunnar er þessi sú ferskasta, þroskaðasta og best skrifaða. Hún er ansi djörf og tekur ávallt áhættuna þegar hún getur, sem gefur henni allt öðruvísi svip heldur en maður sér venjulega á Marvel-myndum, eða bara stórmyndum yfir höfuð. Hún dælir heldur ekki háværum kúlnahríðum og eyðileggingum í átt þína bara svo markhópurinn fái sinn skammt, fer síðan heim og gleymir öllu, heldur einblínir hún á söguþráð og persónutengsl með næstum því aðdáunarverðum áhuga. Hasarinn grípur aldrei fram í fyrir sögunni, og lagt er upp úr því að sjá til þess að hann þræðist aldrei óeðlilega inn í hana.

First Class er ekki einu sinni hasarmynd í hefðbundinni merkingu orðsins, og ég er ekki einu sinni svo viss um að yngri áhorfendur verði eins ánægðir með hana og eldra liðið, sem mun betur kunna að meta það hvernig Kúbudeilan vefst inn í söguna. Krakkarnir geta nú alltaf snúið aftur til Wolverine-myndarinnar því það er nóg af stanslausum barnahasar í henni – vafinn utan um algjör þunnildi að sjálfsögðu. Þessi hefur grimmari, fullorðinslegri brag á sér og er meira kjörin fyrir þá sem vilja meira kjöt á beinin. Það er samt aldrei dauðan punkt að finna þrátt fyrir rúmlega tveggja tíma lengd. Hún verður bara misáhugaverð en þó áhugaverð allan tímann. Mikil áhersla er samt lögð á mannlegu þættina, og dramað sem við fáum er furðu áhrifaríkt. Sumar senur eru þvingaðri en aðrar, en þær sem ná að vera góðar eru ólýsanlega góðar.

Það er líka mjög svo hressandi tilbreyting að sjá loksins einhvern annan en Hugh Jackman bera mesta dramað á öxlum sér og hirða megnið af skjátímanum. Wolverine er kannski harður en að mínu mati sárlega einfaldur karakter. Ég vonaðist alltaf eftir því að fá X-Men Origins-mynd um Magneto og þessi er eins nálægt slíkri og við munum nokkurn tímann fá. Erik Lensherr er svo margbrotinn og athyglisverður karakter, sem sveiflast á milli þess að vera sympatískur, viðkunnanlegur, töff, þrjóskur og ógnandi. Maður fær líka að kynnast allt annarri hlið að honum heldur en hinar myndirnar sýndu og Michael Fassbender fetar eins vel í fótspor Ians McKellen og hægt er að gera. Hann hittir á allar réttu nóturnar (þrátt fyrir að detta stöku sinnum í sinn rétta hreim), og James McAvoy er litlu síðri. Senur þar sem þeir tveir spila á móti hvor öðrum eru vafalaust með þeim bestu í allri myndinni og þær einhvern veginn lyfta henni á hærra gæðastig. Líka alltaf gaman að sjá svona dýra Hollywood-mynd styðjast við tvo semí-fræga gæðaleikara í staðinn fyrir súperstjörnur.

Leikhópur myndarinnar er þó nokkuð sérstakur, en fjölbreyttur og skemmtilegur engu að síður. Flestir koma bara vel út þótt sumir hefðu mátt fá meira að gera, en það er því miður galli sem allar X-Men-myndirnar hafa þurft að sætta sig við. En ef á að segja eins og er þá sleppur þessi miklu betur undan heldur en flestir forverarnir. Fassbender og McAvoy þurfa samt mesta fókusinn og það er í raun bara "x" mikið sem hægt er að gera við svona margar aukapersónur á tveimur tímum. Vaughn passar samt að hver og einn gegni sínu hlutverki án þess að virka tilgangslaus þótt ég geti ekki alveg sagt að sagan hafi grætt mikið á nærveru þeirra Darwin og Angel. January Jones (sem er venjulega fín í Mad Men) er sennilega sú eina sem hefði mátt skipta út hvað frammistöðu varðar, en hún lítur vel út og um leið og líkaminn hennar verður þakinn demöntum er mjög erfitt að spá í leikhæfileikum. Kevin Bacon kemur einnig á óvart sem illmennið og nýtur sín alla leið. Hann er svo kaldur og góður með sig að það verður strax auðvelt að hata hann. Ég get samt varla verið einn um það að hafa fundist það pínu spes að heyra Beikonið tala þýsku ("Wünderbar!").

X-Men-serían er samt óneitanlega komin í dálitla kássu, upplýsingarlega séð, og ef maður raðar núna atburðum saman úr öllum myndunum er fjölmargt sem bara passar ekki. Ef þið skoðið t.d. atburðarás þessarar myndar og hugsið aftur til hinna þá sjáið þið að það eru komnar risastórar "continuity" holur. Wolverine-myndin hugsaði heldur ekkert um það hvernig sú saga myndi smella við hinn þríleikinn, en það fór meira í taugarnar á mér þar vegna þess að þá leið mér eins og handritshöfundarnir hafi bara verið að drulla á hinar myndirnar án þess að pæla neitt frekar í því. Það er líka þroskaheft hugmynd að gera Logan og Sabertooth að bræðrum þegar slíkt var aldrei gefið í skyn í fyrri myndunum.

First Class gerir svipað og meira af því. Ég myndi jafnvel halda að þetta væri tilraun að reboot-mynd ef útlitshönnunin væri ekki eins eða svipuð og í hinum myndunum. Svo að auki er slatti af tílvísunum í þær, þá faldar, áberandi og næstum því svo augljósar að þær lenda beint í smettinu á þér. Þessar breytingar sem Singer, Vaughn og hinir handritshöfundarnir gera á First Class fóru samt miklu minna í mig. Þær virka ekki eins kærulausar og heimskulegar og í Wolverine, heldur meira sem úthugsaðar aðferðir notaðar til að segja góða sögu enn betur. Og þegar uppi er staðið, hverjum er ekki skítsama um það að Hank McCoy hafi sést örstutt í mannlegu formi í X2 þegar breytingin á sér greinilega stað í þessari mynd? Eða hver byggði Cerebro í raun? Ef hver einasta X-Men-mynd hefði verið meiriháttar þá myndi ég kannski - en bara kannski - skipta mér meira af þessu. Sættum okkur bara við það að þetta sé óformleg endurræsing.

Það hvílir oft þannig bölvun á prequel-myndum að þær verða merkilega óspennandi vegna þess að þú veist hvað gerist síðar og hverjir lifa af o.s.frv. Þessi mynd, aftur á móti, ber vott af ósvikinni spennu. Myndin hefur sterkan söguþráð, rétta andann og er allan tímann með heilann starfandi og áhugann í gangi fyrir hverri einustu senu. Sparlega notaður hasar skemmir heldur ekki fyrir ásamt húmor og ákaflega vel heppnuðum retró–stíl á kvikmyndatökunni og andrúmsloftinu. Maður getur ekki annað en hugsað til fyrstu Bond-myndanna frá sjöunda áratugnum. Þótt það sé að biðja um mikið þá vona innilega að komandi X-Men-myndir verði gerðar af jafn miklum metnaði og þessi. Annars er Vaughn á góðri leið núna með að vera eitt virtasta nafnið í nördaheiminum í dag.

8/10

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Tengdar fréttir

22.01.2018

Sannkallaður gullmoli

Í stuttu máli er „Three Billboards Outside Ebbing, Missouri“ afskaplega vel heppnuð mynd sem blandar listilega vel saman drama og gríni með góðum boðskap og frábærum leik. Reið móðir, Mildred (Frances McDormand), ...

18.11.2016

Járnhendi illmennis bíður eftir Logan

Kynning á Marvel ofurhetjumyndinni Logan, síðustu myndinni í Wolverine bálknum, stendur nú sem allra hæst en myndin verður frumsýnd 3. mars nk.  Stutt stikla var frumsýnd fyrr í haust, en framleiðendur hafa síðan þá ...

29.01.2014

Nýjar myndir úr X-Men: Days of Future Past

Nýjar myndir úr X-Men: Days of Future Past hafa litið dagsins ljós og má þar m.a. sjá Jennifer Lawrence í hlutverki Mystique, Magneto svífandi um og Wolverine með klærnar úti. Bryan Singer, leikstjóri myndarinnar hefur...

Svipaðar myndirSkrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn