Náðu í appið
Bönnuð innan 16 áraÍ myndinni er sýnd nekt og/eða þar er að finna kynferðislega hegðun eða tilvísanirMyndin vísar til eða sýnir notkun vímuefnaÍ myndinni er ljótt orðbragð

Your Highness 2011

Justwatch

Frumsýnd: 8. apríl 2011

102 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 27% Critics
The Movies database einkunn 31
/100

Í gegnum tíðina hafa orðið til margar sögur af glæsilegum riddurum sem bjarga prinsessum og drepa dreka, og berjast gegn illum öflum. En á bakvið hverja hetju er huglaus bróðir hetjunnar, sem reynir að forðast öll þessi átök. Í myndinni eru tveir svona prinsar í leiðangri þar sem þeir verða að bjarga landinu sínu, og ástvinum. Thadeous hefur allt sitt... Lesa meira

Í gegnum tíðina hafa orðið til margar sögur af glæsilegum riddurum sem bjarga prinsessum og drepa dreka, og berjast gegn illum öflum. En á bakvið hverja hetju er huglaus bróðir hetjunnar, sem reynir að forðast öll þessi átök. Í myndinni eru tveir svona prinsar í leiðangri þar sem þeir verða að bjarga landinu sínu, og ástvinum. Thadeous hefur allt sitt líf fylgst með hinum fullkomna eldri bróður sínum fremja hverja hetjudáðina á fætur annarri. Hann aftur á móti situr hjá og fær sér bjór og eltir stelpurnar á barnum. Þegar tilvonandi brúður Fabiousar, Belladonnu, er rænt af hinum illa galdramanni Leezar, eru góð ráð dýr.... minna

Aðalleikarar

Kjörin fyrir skakka D&D nörda
Your Highness er ekki mynd fyrir foreldra þína, þrátt fyrir að vera soddan '80s rúnk. Þetta er The Princess Bride – með smá bragði af Krull - eins og Judd Apatow hefði gert hana, sem þýðir að hér sé nóg um gras, blót, brjóst og metnaðarfulla typpabranda. En Rob Reiner-myndin hafði að vísu sjarma og húmor alla leið. Slíkt er líka hægt að segja um bestu Apatow-myndirnar, en það er ekki einu sinni fyndið hvað sá maður hefði getað gert góða hluti fyrir þessa framleiðslu og því er hans sárt saknað. Þessi mynd setur sér nefnilega ekkert æðra markmið en að haga sér eins og krakki og gera það sem hún vill. Stundum gengur hún upp og er sóðalega fyndin en að megnu til reynir hún aðeins of mikið á sig til að teljast fullnægjandi.

Myndin er samt frá því að vera leiðinleg eða þreytandi til áhorfs, sem er annað en ég get sagt um síðustu mynd leikstjórans. Hún rennur á fínum hraða, inniheldur skemmtilega leikara og lítur alls ekkert illa út á mælikvarða fantasíumynda. Skepnuhönnun og brellur eru einmitt óvenju fínar. Samt ferðu ekki á mynd eins og þessa til að horfa á sviðsmyndir og brellur. Þú ferð á hana til þess að hlæja og það veldur talsverðum vonbrigðum hvað húmorinn er oft einhæfur. David Gordon Green (sem var fínn indie-leikstjóri þangað til hann gerði hina ofmetnu Pineapple Express) blóðmjólkar hvern einasta dropa úr senum þegar hann fær tækifæri til þess, og í þeim tilfellum þar sem atriði virðast hvergi stefna neitt er fyllt upp í þau með smekklegu orðbragði, kynlífs- eða grasreykingarbröndurum. Ekkert að því svosem. Þú sérð bara fljótt að það er fátt annað í boði og þá sérðu einnig að biðin eftir frumlegu bröndurunum er oft ansi löng. Mikið af þessu er ekki einu sinni hægt að kalla brandara. Leikararnir blóta oft bara og tala um t.d. sjálfsfróun og endaþarmsmök og með því er ætlast til þess að þú hlæir af þér hausinn því orðbragðið passar svo engan veginn inn í miðaldirnar.

Það er alltaf fúlt í gamanmyndum þegar fjörið á settinu spreðast ekki nógu vel til áhorfenda, og hér sést langar leiðir að leikararnir skemmtu sér konunglega (auðvitað). Ég myndi sjá meiri ástæðu til þess að kvarta ef Danny McBride, James Franco og Natalie Portman væru ekki svona hress og fín. McBride gerir það sem hann gerir best: að leika sjálfhverfan, óviðkunnanlegan hálfvita og á hann sem betur fer slatta af góðum atriðum, sérstaklega í samspilum við aðra. Fylgdarsveinn hans er líka mjög skemmtilegur. Franco og Portman eru einungis að fíflast hérna og leggja semsagt alvöru leikhæfileika sína til hliðar (önnur saga með sönghæfileika Francos). Þeim virðist þó vera sama og sem betur fer tekst þeim að kæta mann í mörgum tilfellum. Portman kætir mann að vísu örlítið meira, en kannski myndu flestar stelpur segja hið öfuga ef Franco hefði næstum því farið úr öllum fötunum.

Bestur er samt Justin Theroux, sem kom mér dálítið á óvart því seinast þegar ég sá hann svona over-the-top var í Charlie's Angels 2, og þar var hann ekki beint ásættanlegur. Þessi maður fær ekki bara bestu línurnar heldur er hann langfyndnasti karakterinn. Hann er fullkomin stæling á yfirdrifnum 80s-fantasíuillmönnum. Leiðinlegt þó að Zooey Deschanel fái ekki mikið annað að gera en að hlusta á hann tala. Hún átti töluvert betra skilið. En fyrst við erum að tala um flestalla leikaranna þá vil ég helst taka það fram að ég hefði alveg getað lifað án þess að sjá Toby Jones – frábæran en ekki beint snoppufríðan leikara - berrassaðan með ekkert klof. Ég neyðist núna til að sitja uppi með þá sjón næstu daga, og af óskiljanlegum ástæðum fannst mér skárra að sjá Mínotáros með standpínu, og líka miklu, miklu fyndnara. Annars ættirðu að fá þarna góða mynd af því hvers konar húmor er um að ræða.

Semsagt, lækkaðu greindavísitölu þína og segðu sjálfum þér að typpabrandarar séu það fyndnasta í heimi og þá áttu eftir að fíla þessa mynd í döðlur! Líka ef þú elskar stóner-gamanmyndir og telur fágaða kímnigáfu vera fyrir aumingja þá mun þér finnast þessi stórkostleg, og ég ætti ekki að þurfa að giska tvisvar undir hvaða áhrifum þú ætlir þér að njóta hennar. Sjálfur gef ég myndinni gott orð fyrir afþreyingargildið og leikaraflippið. Aðeins meiri húmor hefði ýtt henni í sterka sjöu.

6/10

Ef leikstjórinn ætlar að halda þessu mainstream-flæði áfram, þá mana ég hann til að halda sig við kannabis-tengdar myndir áfram. Með eftirnafn eins og Green væri annað bara sóun.

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Tengdar fréttir

05.09.2012

Á Annan Veg tilnefnd til verðlauna

Á annan veg keppir um eftirsóttu kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs við fjórar aðrar myndir frá hinum Norðurlöndunum; En kongelig affære frá Danmörku, Company Orheim frá Noregi, The Punk Syndrome frá Finnlandi og P...

26.02.2012

Al Pacino hlýtur Razzie-tilnefningu

Tilnefningarnar til Hindberjaverðlaunanna eða Golden Raspberries ("Razzies") hafa verið tilkynntar. Þau eru veitt árlega fyrir það versta úr kvikmyndaheiminum, þar sem markmiðið er að skamma þá sem stóðu sig illa. S...

09.09.2011

Nýtt plakat: The Sitter

Frá leikstjóra Pineapple Express og Your Highness kemur gamanmynd um verstu barnapíu í heimi, sem neyðist til að passa einhverja verstu krakka í heimi. Myndin heitir The Sitter og vilja sumir meina að hér sé á ferðinni ...

Svipaðar myndir



Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn