Náðu í appið
Bönnuð innan 12 áraMyndin getur valdið ótta hjá eða er ógnvekjandi fyrir ung börn

Knowing 2009

(Know1ng)

Fannst ekki á veitum á Íslandi

Frumsýnd: 27. mars 2009

Það að vita breytir öllu...

121 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 35% Critics
The Movies database einkunn 41
/100

John Koestler er háskólaprófessor sem finnur fyrir slysni lítinn kassa sem grafinn hafði verið í jörðina 50 árum áður. Í honum eru geymd skilaboð á dulmáli, en þegar Koestler leysir dulmálið kemst hann að því að skilaboðin geyma nákvæmar upplýsingar um hluti og atburði sem áttu sér stað eftir að þau voru skrifuð. Þar á meðal eru allar helstu... Lesa meira

John Koestler er háskólaprófessor sem finnur fyrir slysni lítinn kassa sem grafinn hafði verið í jörðina 50 árum áður. Í honum eru geymd skilaboð á dulmáli, en þegar Koestler leysir dulmálið kemst hann að því að skilaboðin geyma nákvæmar upplýsingar um hluti og atburði sem áttu sér stað eftir að þau voru skrifuð. Þar á meðal eru allar helstu náttúruhamfarir og dramatískustu atburðir síðustu 50 ára.... minna

Aðalleikarar

Flott og vel gerð
Ég hafði fyrirfram blendna tilfinningar gagnvart þessari mynd. Nicholas Cage hefur ekki beint verið ávísun á góða mynd en hins vegar þá er leikstjórinn, Alex Proyas, mikill snillingur. Niðurstaðan er einhvers staðar þarna á milli.
Söguþráðurinn er frumlegur og áhugaverður. Tímahylki er grafið í jörðu um miðja 20. öldina. Þegar það er grafið upp mörgum áratugum seinna finnst þar kóði sem geymir spádóma um öll helstu stórslys síðustu áratuga og nokkur sem eiga enn eftir að gerast. Sá sem þetta uppgötvar er John Koestler (Nicholas Cage), prófessor við MIT. Eftir að hafa orðið vitni að stórslysi á sama tíma og stað og spádómurinn spáði fyrir um, fer hann að leita leiða til að hindra að næstu stórslys sem skjalið spáir fyrir um, verði að veruleika.
Myndin er mjög flott og vel gerð. Ég vil ekki taka dæmi úr myndinni, en eitt atriði í myndinni er sérstaklega flott. Það er fyrsta stórslysið sem aðalpersónan verður vitni að. Það er augljóst að það er hæfileikafólk á bakvið myndavélarnar. Því miður er ekki hægt að segja það sama um fólkið sem er fyrir framan myndavélarnar. Nicholas Cage er alltaf eins, algjörlega ótrúverðugur. Það sama má segja um mótleikara hans, Rose Byrne, sem fer með aðalkvenhlutverkið. Hlutverk hennar er að vísu illa skrifað sem e.t.v. afsakar framistöðu hennar. Í myndinni er persónan algjörlega vonlaus.

Þrátt fyrir það þá er myndin ágæt skemmtun. Sagan er áhugaverð og vel útfærð. Myndin er mjög spennandi alveg frá upphafi og varla hægt að finna dauðan punkt. Eins og við mætti búast í mynd eftir Alex Proyas er heildarútlit myndarinnar mjög flott og tónlist hennar í hæsta gæðaflokki. Sérstaklega fannst mér hann nota 7. sinfóníu Beethovens vel, en hún er eins konar stef í myndinni.

Knowing er stórslysa mynd með Sci-fi áherslu. Sem stórslysamynd er hún mjög vel heppnuð, þ.e. hún uppfyllir öll skilyrði stórslysamynda. Hún er flott, spennandi og það eru magnaðar senur í henni. Sem Sci-fi mynd er hún einnig góð því hún bíður upp góðan söguþráð, spennu og skemmtilegt twist. Ég tel því óhætt að mæla vel með þessari stórmynd.

Davíð Örn Jónsson

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei

Frá leikstjóra Dark City, Alex Proyas kemur Knowing, saga um John(Nicolas Cage) sem fær í hendurnar pésa sem hefur að geyma spádóma um ýmis konar stórslys frá árinu 1959 til ársins 2009. Í kjölfarð missir John smám saman vitið og ekki batnar það þegar hann uppgvötar að heimsendir er í nánd. Knowing er ansi góð mynd og það sem er jákvætt við hana er að hún er sniðug, dularfull og eiginlega meira hrollvekjandi en ég átti von á. Þetta er samt ekki beinlínis hrollvekja heldur meira semí-hrollvekja ef þannig má að orði komast. Myndin er flott og endirinn ferskur. Ég vil helst setja út á Knowing að í leik og persónusköpun meikar hún lítið. Nicolas Cage er alls ekki slæmur í þessari mynd en hann er heldur ekki mjög góður. Hann er yfirleitt frábær leikari og þó að karakter hans í Knowing sé nokkurn veginn sannfærandi þá er hann flatur og ekkert sérstaklega eftirminnilegur. Mótleikarar hans hér má segja það sama um. Ég vil gefa Knowing þrjár stjörnur fyrir að hafa skemmt mér ágætlega en þar sem að hún olli mér vonbrigðum varðandi karakterana þá gef ég henni tvær og hálfa.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skref upp fyrir Cage
Knowing er það sem ég kýs að kalla "öðruvísi" stórslysamynd. Nákvæmlega hvað það er sem gerir hana öðruvísi ætla ég ekki að fara út í, því þá er ég kominn í hættu að segja frá of miklu. Myndin byggir á mörgum skemmtilegum hugmyndum, sumum ferskum og sniðugum en fáum frumlegum.

Um er að ræða einkennilegan blending af Signs og The Number 23. Mér fannst ég líka sjá svolítið af The Fountain í henni ef ég á að vera hreinskilinn. Ég gæti nefnt nokkrar aðrar myndir sem Knowing annað hvort stelur eða fær lánað frá, en bara það að nefna þær myndir myndi spilla fyrir þessari. Það er einmitt vandinn við að fjalla um myndir sem þessa. Maður þarf að gæta sín á spoilerum, sem er skondið því þeir tengjast helstu göllum þessarar myndar.

Það eru fáeinir hlutir við þessa mynd sem ég dýrka, margir hlutir sem ég fíla en nokkrir sem ég hata. Ég ætla að byrja á kostunum og þrepa mig síðan niður.

Það sem stóð klárlega upp úr Knowing voru stórslysasenurnar. Það hefði kannski mátt fínpússa tölvubrellurnar sum staðar, en annars voru þessi atriði hreint út sagt mögnuð (einna töku skotið eftir flugslysið var geggjað!). Maður hefur oft séð byggingar springa í tonnatali í bíómyndu (mér dettur að sjálfsögðu nafnið Roland Emmerich í hug), en sjaldan hefur mér liðið jafn óþægilega við slíkar senur og hér. Það lá við að maður hafi fundið fyrir dauðsföllunum og það eru áhrif sem Alex Proyas getur verið ánægður með að hafa framkallað úr manni. Auk þess er tónlist Marcos Beltrami svo magnþrungin og hljóðrásin vel til þess fallin að auka óþægindin. Annars þykir mér furðulegt að þessi mynd skuli bera PG-13 merkið því hún er talsvert myrkari og óhugnanlegri en ég átti von á.

Það helsta sem ég fíla við Knowing er hvernig hún tekur nokkrar yfirdrifnar hugmyndir og leikur sér að þeim. Alex Proyas er einmitt þekktastur fyrir að gera gott úr langsóttum hugmyndum. Ég virði manninn gríðarlega. Dark City er t.d. ein af mínum uppáhalds vísindaskáldsögum og költ-myndum. Proyas nær ekki að láta allar hugmyndirnar ganga upp í þessari mynd, en þó margar. Myndin er sömuleiðis hröð og eyðir engu púðri í að lengja ræmuna að óþörfu.

En þá kemur að því vonda, og ég verð því miður að skella Nicolas Cage í þann flokk. Hann er ekki það versta við myndina, langt frá því, en hann er voða hallærislegur og virðist vera á sjálfsstýringu allan tímann. Ég fann aldrei til með honum þegar hann átti að vera reiður, sorgmæddur eða jafnvel hræddur. Hann setti bara upp asnalega svipi. Cage er líka búinn að setja hvern svarta blettinn á ferilskrá sína á eftir öðrum undanfarin ár. Knowing er ábyggilega besta myndin hans síðan... Matchstick Men, en hversu mikið það segir manni ætla ég að leyfa ykkur að dæma um.

Það sem angraði mig mest út myndina voru krakkaleikararnir, sérstaklega strákormurinn sem lék Caleb, son Cage. Síðan voru nokkrar senur sem komu vel kjánalega út - og þá tel ég ekki bara senur stráksins með. Atriðið t.d. þegar Cage uppgötvar talnaröðina og fattar hvernig hún virkar var svo handahófskennt og aulalegt að það er eins og persónan lifi fyrir yfirdrifnar samsæriskenningar. Svo í lokin misstígur myndin sig rosalega með ógeðfelldri melódramatík í takt við hræðilegan barnaleik. Bláendirinn var flottur, en senurnar sem leiddu að honum voru bara... einum of. Tilvísanirnar í biblíuna voru líka fullaugljósar og þar af leiðandi píndar. Hver skírir annars krakkann sinn Caleb?!

Fyrir það eitt og sér að kunna að koma manni á óvart er Knowing þess virði að horfa á, en þá tæplega. Svo þarf náttúrlega ekki að minnast á slysaatriðin (aftur). Annars er niðurstaðan fullblönduð til að verðskulda einhver meðmæli. Ég hef samt ekki misst álit mitt á Proyas, ennþá. Hann þurfti bara aðeins að koma sér aftur í æfingu eftir 5 ára pásu frá leikstjórn. Vona að hann brilleri með næstu mynd.

6/10

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Tengdar fréttir

26.06.2022

Afhverju er raðmorðinginn í The Black Phone svona ógnvekjandi?

Flestar hrollvekjur þar sem raðmorðingjar koma við sögu eyða vanalega nokkru púðri í að segja einhverja hörmulega sögu af fortíð morðingjans sem getur þá útskýrt afhverju venjuleg manneskja getur breyst í skríms...

15.07.2018

Öll ABBA lögin í Mamma mia!: Here We Go Again

Þegar fréttist af því að gera ætti nýja Mamma Mia! kvikmynd, þá var það fyrsta sem margir ABBA aðdáendur hugsuðu: "Hvaða ABBA lög ætli verði í nýju myndinni?", en fyrri myndin var hlaðin ABBA lögum, sem leikarar...

16.03.2013

Alan Partridge stikla - Alpha Papa!

  Eins og öllum aðdáendum Steve Coogans er væntanlega löngu kunnugt er hinn mislukkaði fjölmiðlamaður, Alan Partridge, sem jafnframt er ástsælasta og vinsælasta persóna sem Coogan hefur leikið, loksins á leið á hvíta tjaldið, eftir að haf...

Svipaðar myndir



Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn