Ég hef aldrei verið mikið fyrir Adam Sandler-grínmyndir. Ég held að þær einu sem ég fíla almennilega eru Happy Gilmore, The Wedding Singer og núna - ótrúlegt en satt - Zohan!
Sjaldan hef ég orðið fyrir öðru eins óvæntu og þegar ég settist niður, byrjaði að horfa á þessa mynd og var farinn að hlæja reglulega innan við fyrstu 10 mínúturnar. Ég fór alvarlega að íhuga hvort að eitthvað slæmt hefði komið fyrir mig, en svo hélt myndin áfram og leið aldrei of langt á milli góðra djóka.
You Don't Mess with the Zohan er þó blessunarlega allt öðruvísi heldur en flestar Sandler-þvælurnar. Meðan að gaurinn er venjulega sérhæfður í aulalegum barnahúmor, þá er þessi mynd meira eða minna bara algjör steypa. En stórskemmtileg steypa engu að síður, og ég held að undirstaða góða húmorsins sé meðal annars sú að þeir Judd Apatow (hann er alls staðar!) og Robert Smigel (Triumph the Insult Dog) áttu þátt í handritinu ásamt Sandler.
Zohan býður upp á nánast allt; Bíómynda-spoof, menningarádeilu, kjánahúmor, homma- og kynlífsbrandara, slapstick og - undir einhverjum ástæðum - hacky sack með lifandi ketti!
Myndin er svo drekkhlaðin bröndurum að ekkert annað skiptir neinu máli. Ef að einn brandari feilar, þá er stutt í næsta. Auðvitað er heill hellingur af bröndurum sem missir marks, svo eru margir aðrir sem eru bara súrir af engri ástæðu (hummus?), en góðu punktarnir eru nægilega margir og nógu fyndnir til að hífa myndina upp þannig að eftir stendur bara asskoti góð skemmtun.
Adam Sandler ber líka bíómynd loksins uppi eins og hann á að gera. Hann er ekkert að fela sig á bakvið bjánalega rödd (The Waterboy, Little Nicky) eða missa sig í kómískum bræðisköstum (The Waterboy (!), Anger Management). Zohan-karakterinn er einhver alskrautlegasti en um leið fyndnasti og viðkunnanlegasti sem hann hefur leikið. Þrátt fyrir að vera nánast bein skopstæling á Borat/Bruno týpunum er Zohan gerður að voða lágstemmdum gaur, þrátt fyrir að vera sömuleiðis ósigrandi ofurmenni (sem er vissulega partur af gríninu). John Turturro og Rob Schneider (af öllum!) eru sömuleiðis drepfyndnir sem reiðir Palestínumenn. Turturro á tvímælalaust bestu brandara myndarinnar og tilvísun hans í Rocky er pjúra snilld.
Það er skondið hvað myndin hoppar mikið upp og niður í húmor út alla lengdina (heilar 113 mínútur?!). En þrátt fyrir að vera ójöfn og pínu langdregin verður myndin aldrei leiðinleg og skapar hún e.t.v. stórskemmtilegan fíling í vitleysunni svo ég tali nú ekki um brjálæðislega catchy tónlist (sem angar af mikilli nostalgíu - sbr. Rockwell, Ace of Base og Technotronic) í þokkabót.
Það er nett hressandi að sjá þvælumynd sem er eitthvað þess virði að mæla með. Engin perla, en ég væri klárlega til í að horfa á þessa mynd aftur í góðum vinahópi.
7/10
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg?
Já Nei