Náðu í appið
Bönnuð innan 6 áraMyndin getur valdið ótta hjá eða er ógnvekjandi fyrir ung börnÍ myndinni er ljótt orðbragð

Grown Ups 2010

(Lake House, Lakefront, Mad Families, Untitled Adam Sandler Project)

Frumsýnd: 24. júní 2010

Boys will be boys... some longer than others.

102 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 10% Critics
The Movies database einkunn 30
/100

Árið 1978 þá vinna fimm 12 ára gamlir strákar CYO körfuboltamótið. Þrjátíu árum síðar, þá koma þeir saman ásamt fjölskyldum sínum þegar þjálfari þeirra er jarðsunginn og eyða helgi saman í húsi við vatn þar sem þeir voru vanir að hittast og skemmta sér í. En núna, þá er hver þeirra orðinn fullorðinn og með sín eigin vandamál og áskoranir.... Lesa meira

Árið 1978 þá vinna fimm 12 ára gamlir strákar CYO körfuboltamótið. Þrjátíu árum síðar, þá koma þeir saman ásamt fjölskyldum sínum þegar þjálfari þeirra er jarðsunginn og eyða helgi saman í húsi við vatn þar sem þeir voru vanir að hittast og skemmta sér í. En núna, þá er hver þeirra orðinn fullorðinn og með sín eigin vandamál og áskoranir. Marcus er einn og drekkur of mikið. Rob, sem á þrjár dætur sem hann sér lítið af, er alltaf rosalega ástfanginn þar til hann hittir nýja konu. Eric er allt of feitur og atvinnulaus. Kurt er kúgaður eiginmaður og tengdasonur. Lenny nýtur mikillar velgengni í Hollywood og er umboðsmaður sem er kvæntur farahönnuði; börnin þeirra eru orðin fordekruð. Mun útilegan hjálpa þessum fullorðnu einstaklingum að treysta böndin, eða verður þetta bara ein stór óreiða?... minna

Aðalleikarar

Meira fjör á settinu heldur en í salnum
Grown Ups er nokkuð lík Couples Retreat að því leyti að hún virkar eins og hún sé spunnin á staðnum og gerð á meðan fullt af frægum leikurum ákváðu að skella sér í frí. Þetta er svona nokkurn veginn eins og að horfa á vídeóupptökur frá ókunnugu fólki á meðan það naut lífsins annaðhvort í bústað eða á sólarlandi. Í tilfelli beggja mynda þá er engan söguþráð að finna og það sem étur upp lengdartímann eru senur sem sýna persónurnar vera að gera það sem áhorfendur vildu sjálfir óska að þeir væru að gera í stað þess að horfa á aðra hvora myndina. Ég veit allavega ekki með ykkur, en ég væri pottþétt meira til í að fara í vatnsskemmtigarð heldur en að sitja yfir Grown Ups þar sem það kemst svo ákaflega vel til skila hvað Adam Sandler og co. nutu sín mikið í einum slíkum.

Ég skal alveg fyrirgefa plottleysið því það sem skiptir mestu máli í svona mynd er grínið. Gallinn er bara sá að þessi mynd er hroðalega löt, og leikararnir gera ekkert annað en að njóta nærveru hvors annars og skemmta sér. Ekkert að því auðvitað, en af hverju ætti *ég* að þurfa að horfa á aðra skemmta sér ef gleðin smitast ekki til áhorfandans? Ef þessi mynd hefði einhverja þróun eða a.m.k. smá metnað fyrir persónusköpun (eins og t.d. langflestar Apatow-myndir hafa gert) þá myndi ég ekki kvarta eins mikið. Húmorinn er líka bara samansafn af bröndurum sem eru stanslaust í endurvinnslu út alla myndina (hversu oft er ætlast til þess að við hlæjum að því að Rob Schneider eigi 75 ára gamla kærustu?). Grown Ups er hugsanlega metnaðarlausasta gamanmynd Sandlers/Happy Madison gengisins til þessa. Það gerist ekkert í henni, og svo reynir hún að réttlæta tilvist sína með því að moka ofan í okkur mjög fyrirsjáanlegan og nokkuð þvingaðan boðskap um vináttu og þroska. Frekar skondið miðað við hvað húmorinn í þessari mynd er barnalegur, og meira að segja eftir að mórallinn kemur fram heldur myndin áfram að vera þannig.

En þrátt fyrir að Adam Sandler, Kevin James, Chris Rock og Rob Schneider (Derp) geti verið mistækir, þá er pínu skemmtilegt að sjá þá alla saman hér og alvöru vinátta þeirra skín í gegnum samspil þeirra. Stundum eru þeir fyndnir, en í flestum tilfellum eru þeir bara þarna og leggja enga vinnu í að vera eitthvað eftirminnilegir. Ég gerði það viljandi að sleppa David Spade í upptalningunni. Hann er nefnilega ekki mistækur, heldur oftast leiðinlegur (nema í The Emperor‘s New Groove) og þessi mynd er engin undantekning. En eins lítið og drengirnir fá til að gera þá er það ekkert miðað við konurnar í myndinni. Salma Hayek (sem er ennþá jafn heit og hún var í Desperado!!), Maria Bello, Maya Rudolph og Joyce Van Patten gera nákvæmlega ekki neitt annað en að sýna andlit sín og (vitaskuld) njóta lífsins á meðan kameran beinist að þeim.

Hugmyndin að safna þessu fólki saman og búa til grínmynd er í raun stórfín, þrátt fyrir að meirihluti leikaranna séu útbrenndir. Samt, ef maður ætlar að gera eitthvað af viti með svona hugmynd þá er ekki jákvætt að fá einhvern eins og Dennis Dugan til að halda um taumanna. Fyrir utan Happy Gilmore og hina óvenju fyndnu Zohan þá hefur Dugan verið eins og eitur fyrir grínmyndir, og ef myndirnar hans eru ekki að kafna úr miðjumoði þá eru þær bara hreint út sagt slæmar. Ég skil ekki hvernig maðurinn fær vinnu eftir að hafa stýrt myndum eins og National Security, The Benchwarmers og Chuck & Larry svo einhverjar séu nefndar. Það má þó segja að Grown Ups sé ein af hans betri myndum, og ef þú ert á meðal þeirra sem dýrkar húmorinn hans þá er þetta algjört konfekt fyrir þig. Annars, ef þú hefur heilbrigða kímnigáfu þá er betra að leita eitthvert annað.

Ég ætla alls ekki að segja að ég hafi ekkert hlegið yfir þessari mynd, en samtals held ég að það hafi verið cirka 4 eða 5 skipti, og það myndi varla vera nóg til að gera 20 mínútna gamanþátt þess virði að horfa á, hvað þá 100 mínútna bíómynd. Horfið frekar á The Big Chill. Hún fjallar næstum því um það sama (æskuvinir hittast í jarðaför eftir mörg ár og eyða fríi saman) og er margfalt betri.

4/10

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Svipaðar myndir


Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn