Gamanmyndir sem ganga út á gredduhúmor og kynlíf eru ekki eitthvað sem ég tel vera eitthvað sérstakt uppáhald. Til eru margar djöfulli góðar, en mér finnst þær langoftast bara alltof ósmekklegar og dæmigerðar til þess að vera fyndnar. The 40 Year Old Virgin er örugglega einhver besta mynd sinnar tegundar sem ég hef séð lengi.
Titill þessarar myndar er býsna sjálflýsandi svo óþarft er að rekja söguþráðinn, en Steve Carell hefur allavega það hlutverk að bera myndina uppi einn eftir að hafa brugðið fyrir í misstórum aukahlutverkum áður. Eftirminnilegast hlýtur að vera þegar hann fór á kostum sem veðurfréttamaðurinn í Anchorman. Carell hefur þó ótrúlega mikinn sjarma sem leikari, og manni líkar fljótt við hann. Persóna hans í þessari mynd er vel skrifuð og þegar lengra líður á er erfitt að halda ekki með þessum einstaklingi... og þar af leiðandi halda upp á "baráttu" hans til að ná sér í kvenmann.
Það kemur skemmtilega á óvart hversu hugljúf myndin er, þ.e.a.s undir öllu sjúka yfirborðinu þar sem kynfærahúmor, hommabrandarar og ódauðlega mikið magn af ljótum orðbrögðum og klúrum kynlífssamtölum ræður ríkjum. Catherine Keener er traust mótileikkona og skilar sínu vel, þó svo að hún leiki nánast alltaf sömu persónuna. Paul Rudd á einnig góða spretti sem einn vinurinn, sömuleiðis Seth Rogen.
Það helsta sem ég get notað til að setja út á þessa mynd er örugglega lengdin. Myndin gengur í ca. tvo klukkutíma og finnur maður auðveldlega fyrir þegar hún byrjar að dragast út. Aftur á móti þá bætir hún það samstundis upp með einhverjum alfyndnasta og óvæntasta endi ársins! Pjúra snilld!! Þokkalega meðmælisins virði eitt og sér.
Ásamt Wedding Crashers er The 40 Year Old Virgin án efa með þeim betri gamanmyndum sem ég hef séð á árinu og er hún gulltryggt úrval fyrir þá aðila sem vilja ganga brosandi út (sem í þessu tilfelli - eftir þennan endi - er mjög líklegt), þ.e.a.s. þeir sem móðgast ekki léttilega eða eru viðkvæmir fyrir misnotkun á ljótu orðbragði...
7/10
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg?
Já Nei