Aðalleikarar
Leikstjórn
Handrit
Það er hrein synd að Before night falls, eða Antes de anochezca einsog skáldsagan sem hún er gerð eftir heitir á frummálinu, skuli ekki hafa náð sýningum í íslenskum bíóum. Það þarf alltaf tilbreytingu frá amerísku gelgjumyndunum. Ég er sammála því sem sagt er hér að ofan, að þetta er mynd Javier Bardem - hann stelur senunni. Aðrir leikarar eru samt yfirleitt góðir, og sérstaklega finnst manni stórskemmtilegt að sjá Johnny Depp sem klæðskiptinginn í fangelsinu. Ég hef ekki lesið bókina, ævisögu rithöfundarins Reinaldo Arenas, þannig að ég get ekki borið það neitt saman, en mér er sagt að hún sé fantagóð og enn betri en myndin. En semsagt, þetta er bara góð mynd, sérstaklega Javier Bardem, og myndatakan með ágætum. Ég hef ekkert meira að segja en gef henni þrjár stjörnur.
Í hæsta máta óhefðbundin kvikmynd um ævi kúbanska skáldsins og rithöfundarins Reinaldo Arenas. Spænski leikarinn Javier Bardem, sem maður hefur ekki séð í svona hlutverki áður, leikur Arenas frá unglingsaldri fram til dauðadags og er vægast sagt frábær. Hann fékk Golden Globe tilnefningu og væri vel kominn að Óskarstilnefningu líka. Í stuttu máli segir myndin frá uppvexti Arenas á tímum Kúbubyltingarinnar og hvernig var að lifa sem samkynhneigður maður á tíma og stað þar sem slíkt var talið vera svik við hugsjónir kommúnismans. Arenas gerði mikið af því að styggja yfirvöld með skrifum sínum og gerðum, og svo fór að honum var stungið í fangelsi við ömurlegar aðstæður eftir að upp komst um leynilega útgáfu á skrifum hans erlendis. Before Night Falls (sem er titill eins verks Arenas) er mynd Bardems. Hann er í hverju atriði og blæs persónuna lífi og sál og hreinlega rennur saman við hinn raunverulega Arenas. Olivier Martinez leikur besta vin hans, Lazaro Carilles (sem er einn höfunda handritsins), seinna hluta ævinnar og hann skilar sömuleiðis sterkum leik í vanþakklátu hlutverki. Sean Penn skýtur upp hausnum í mjög litlu hlutverki, og Johnny Depp er í tveimur hlutverkum, báðum óvenjulegum en fyndnum og vel gerðum. Before Night Falls á sennilega ekki eftir að rata í íslensk kvikmyndahús, sem er mikil synd því hún er öðruvísi en flest sem boðið er upp á. Það er alltaf hressandi, og nauðsynlegt til að halda uppi gæðunum.
Um myndina
Leikstjórn
Handrit
Reynaldo Arenas, Julian Schnabel
Framleiðandi
Fine Line Features
Tekjur
$8.524.534
Vefsíða:
Aldur USA:
R