Aðalleikarar
Leikstjórn
Ein af bestu myndum Peckinpahs. Byggir sig hægt og rólega upp að mögnuðum lokakafla.
Hér var Peckinpah svo sannarlega í essinu sínu. Þegar háskólamenntuð ung hjón setjast að á heimaslóðum konunnar skammt frá afskekktu ensku þorpi, eiga þau brátt í vök að verjast vegna fjandskapar sumra þorpsbúanna, einkum jafnaldra konunnar sem höfðu áður gerst sér vonir um hana. Eiginmaðurinn, sem leikinn er af Dustin Hoffman, reynir að gera gott úr öllu og lætur nánast hvað sem er yfir sig ganga, en þegar óaldarlýðurinn ógnar heimili hans, tekur hann til sinna ráða. Það er sem Peckinpah sé að segja, að eiginmaðurinn verði þá fyrst að manni, þegar hann taki upp haglabyssuna og verji sig og sína. Ofbeldið er alveg hrikalegt í myndinni, enda var hún frá fyrstu tíð umdeild. Túlkun Hoffmans var ekki síst gagnrýnd, enda er ekki laust við, að hann njóti alls ofbeldisins, þegar hann loks borgar óaldarseggjunum í sömu mynt. Hann slær eldskörunginum oftar en ástæða er til og í öllum hamaganginum er sem dauft bros taki að leika um varir hans. Besti leikari myndarinnar er þó Susan George í hlutverki eiginkonunnar, sem í fyrstu er lífsglöð og sjálfstæð en kiknar svo undan mótlætinu. David Warner er auk þess eftirminnilegur í litlu en veigamiklu hlutverki þroskahefts einfara, sem þorpsbúar telja ástæðu til að hafa undir stöðugu eftirliti. Spennan í myndinni er stigvaxandi og nær hámarki undir lokin, en strax í upphafi er ljóst, að illa muni fara. Enda þótt ýmsum blöskri ofbeldið, er því aldrei ofaukið heldur í fullu samræmi við þróun mála. Eitt afbrot leiðir af sér annað verra þar til enginn fær lengur rönd við reist. Myndatakan er hrá og drungaleg og klippingarnar magnaðar, sérstaklega fyrir hugskotssjónum eiginkonunnar og í átakaatriðunum.
Um myndina
Leikstjórn
Handrit
David Zelag Goodman, Gordon Williams
Framleiðandi
Sony Pictures/Screen Gems
Aldur USA:
R