Hafdís Helga Helgadóttir, aðalleikkona í nýrri íslenskri bíómynd eftir Óskar Jónasson, Fyrir framan annað fólk, sem frumsýnd verður í næstu viku, segir aðspurð í samtali við Morgunblaðið að myndin sé fyrir alla: „Kannski er það klisja en þetta er mynd fyrir alla. Sagan er sammannleg og margir ættu að geta tengt við hana. Þetta er notaleg og hlý mynd um persónulegu áskoranirnar í lífinu,“ segir Hafdís.
Halla og Snorri Engilberts, mótleikari hennar, segja í viðtalinu að myndina megi skilgreina sem rómantíska gamanmynd með dramatísku ívafi. „Segja má að þessi mynd sé einskonar óður til mannlegs breyskleika,“ segir Hafdís.
Fyrir framan annað fólk fjallar um Húbert, ungan grafískan hönnuð, sem fellur marflatur fyrir Hönnu, ungri konu sem hann hittir í samkvæmi. Húbert þessi er hlédrægur og óframfærinn að upplagi og til að brjóta ísinn gagnvart Hönnu fer hann að herma eftir yfirmanni sínum á auglýsingastofunni, þar sem hann starfar, en sá er óforbetranlegur kvennabósi og með öll helstu „múvin“ á hreinu. Yfirmanninn leikur Hilmir Snær Guðnason.
Hanna er ábyrgðarfullur grunnskólakennari og einkabarn. Hún er að jafna sig eftir erfið sambandsslit og alls ekki að leita að nýju sambandi og gerir Húberti strax grein fyrir því. Það auðveldar honum sannarlega ekki leikinn. Eins og gengur taka málin fljótt óvænta stefnu með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.