Murphy kokkar í 15 ár

Gamanleikarinn Eddie Murphy er mættur í dálítið öðruvísi hlutverki en við erum vön að sjá hann í í nýjustu mynd sinni Mr. Church, þar sem hann leikur einkakokk konu sem á við veikindi að stríða. Myndin er væntanleg í bíó í Bandaríkjunum 16. september nk. en er ekki með skráðan frumsýningardag hér á Íslandi.

Með önnur helstu hlutverk fara Britt Robertson, Natascha McElhone, Lucy Fry, Christian Madsen og Xavier Samuel.

"Cook"

Myndin segir frá einstakri vináttu sem verður til þegar lítil stúlka og dauðvona móðir hennar fá sælkerakokk í sína þjónustu – Henry Joseph Church. Fyrst er hann ráðinn í sex mánuði en endar með að vinna hjá mæðgunum í fimmtán ár, og úr verða fjölskyldubönd sem endast um alla framtíð.

Sjáðu nýja stiklu úr myndinni hér fyrir neðan: