Hinn upprennandi leikstjóri Christopher Nolan ( Memento ) hefur nú undirritað samning þess efnis að hann muni leikstýra nýrri kvikmynd um hetjuna Batman fyrir Warner Bros. kvikmyndaverið. Hann er svosem ekki fyrstur til þess, en fjölmargar tilraunir til þess að gera nýja Batman mynd hafa verið reyndar og mistekist. Nú síðast reyndi leikstjórinn Darren Aronofsky ( Requiem for a Dream ) að gera Batman: Year One, sem hann var að skrifa með myndasöguhöfundinum goðsagnakennda, Frank Miller. Það datt upp fyrir og nú er Nolan kominn í staðinn. Ekki er vitað eftir hvaða handriti Nolan ætlar að fara, en eitt handrit sem nefnist Batman: The Frightening hefur verið að ganga um Hollywood að undanförnu. Í því leikur glæpóninn Scarecrow stórt hlutverk, og hræðir alla með hræðslugasi einu sem hann hefur þróað. Batman neyðist þá að sjálfsögðu til þess að taka í lurginn á honum. Það eina sem vitað er á þessari stundu, er að Nolan hyggst berjast fyrir því að hinn frábæri Guy Pearce fari með hlutverk Batman, þó fyrirfram sé vitað að Warner vilji frekar fá stærra nafn. Frekari fregna er beðið.

