Múmían fær söguþráð!

Múmían, eða The Mummy, sem Tom Cruise leikur aðalhlutverkið í og Russell Crowe gæti sömuleiðis verið að fara að leika í, eins og við sögðum frá í gær, hefur nú fengið opinberan söguþráð, en hingað til hefur sagan verið á huldu.

mummy

Auk Cruise þá leikur Sofia Boutella ( Kingsman: The Secret Service og Star Trek Beyond ) sjálfa múmíuna, en það er í fyrsta skipti í sögu þessarar myndaraðar ( Fyrsta myndin var gerð árið 1932 með Boris Karloff í aðalhlutverki ), að múmían er leikin af konu.

Söguþráðurinn er þessi:

„Þó að hún hafi verið kirfilega jörðuð í grafhvelfingu djúpt í iðrum eyðimerkurinnar, þá vaknar forn drottning, sem var svipt örlögum sínum á óréttlátan hátt, upp í nútímanum, og með henni fylgir gríðarleg reiði og vond orka, sem safnast hefur upp þessi árhundruð sem hún hefur legið í gröf sinni. Frá söndum Mið-austurlanda í gegnum falin völundarhús undir Lundúnaborg nútímans, þá er hér á ferðinni óvænt spenna, undur og óvæntir hlutir, í hugvitsamlegri nýrri útgáfu, sem gerist í nýjum heimi guða og skrímsla.“

Tökur myndarinnar standa nú yfir í London. Aðrir helstu leikarar eru Annabelle Wallis, Jake Johnson, úr New Girl og Courtney B. Vance.

Alex Kurtzman leikstýrir.

Myndin er væntanleg í bíó á næsta ári.