Við lifum nú á tímum þar sem sjónvarpsþættir njóta mikilla vinsælda, og því er mikið um endurgerðir og endurræsingar á gömlum og góðum sjónvarpsþáttum. Ein slík er endugerðin á „eitís“ leynilögguþáttunum MAGNUM P.I., sem margur Íslendingurinn man sjálfsagt vel eftir frá því í gamla daga.
Nú er það Jay Hernandez sem tekur við keflinu í hlutverki Thomas Magnum, af hinum yfirvararskeggjaða Tom Selleck. Leikstjóri prufuþáttarins ( Pilot ) er Justin Lin, og miðað við það sem sjá má í nýútkominn stiklu, þá er von á góðum hasar og gríni í bland.
Stór hluti stiklunnar fer í að sýna hetjuna okkar, Magnum, akandi í rauða sportbílnum sínum, en svo virðist sem hann eigi hundruð slíkra í bílskúrnum heima hjá sér.
Einhverjir aðdáendur mottunnar á Selleck eru sjálfsagt efins um gæði nýju seríunnar, enda skartar nýi leikarinn ekki sömu hárfegurð á efri vörinnni, en það er vert að gefa honum séns.
Kíktu á stikluna hér fyrir neðan, og stiklu úr gömlu þáttunum þar fyrir neðan.
Þættirnir fara á dagskrá CBS sjónvarpsstöðvarinnar síðar á árinu, og vonandi detta þeir inn á Premium eða Maraþon eða aðrar íslenskar veitur sömuleiðis: