Monty Python alla daga

Goðsagnir grínsins í Monty Python stigu á stokk í lifandi uppfærslu í London, en uppfærslan var sýnd á kvikmyndatjaldi í Bíó Paradís í gær. Kvikmyndahúsið hyggst svo sýna uppfærsluna á hverjum degi í ágústmánuði, en þar setur grínhópurinn, sem samanstendur af John Cleese, Terry Gilliam, Eric Idle, Terry Jones og Michael Palin, á svið sín frægustu atriði með nútímalegum hætti.

monty-python

Grínararnir skrifuðu og léku í Monty Python’s Flying Circus þáttunum og skrifuðu einnig og léku í þónokkrum grínmyndum eins og Monty Python and the Holy Grail og The Life of Brian.

Fyrsti þátturinn af Monty Python’s Flying Circus fór í loftið árið 1969 á bresku sjónvarpsstöðinni BBC. John Cleese hætti eftir þriðju þáttaröð. Þeir meðlimir sem eftir voru gerðu eina þáttaröð til viðbótar áður en hætt var við framleiðslu á þáttunum árið 1974 en allt í allt tóku þeir upp fjórar þáttaraðir sem innihéldu 45 þætti. Þáttaröðin hefur haft nær ómæld áhrif á breska grínista líkt og grínista um heim allan.