Þegar streymisrisinn Netflix tilkynnti seint á síðasta ári að vinna með gamanleikaranum Zach Galifianakis og leikstjóranum Scott Aukerman, að því að gera Emmy verðlaunuðu vefþættina Between Two Ferns, eða Milli tveggja burkna, að kvikmynd, þá tóku menn því misvel. Menn voru ekki vissir hvernig þetta efni ætti heima í bíómynd í fullri lengd. Galifianakis og Aukerman hafa í gegnum árin byggt þessa þætti upp á því að tekin eru vandræðaleg og oft næstum fjandsamleg viðtöl við fræga einstaklinga, en Galifianakis og viðmælandi sitja á móti hvor öðrum, og sviðsmyndin er tveir burknar.
En eins og AV News bendir á þá eru þættirnir mjög skýr og góð hugmynd: Maður sem er hæfilega aðgangsharður, og stundum rúmlega það, tekur viðtal við stjörnur, þær svara oft fullum hálsi, og stundum er jafnvel forseti Bandaríkjanna í þættinum. En hvernig er hægt að gera bíómynd úr þessu, spyrja menn?
Netflix hefur birt upplýsingar um verkefnið, þar á meðal frumsýningardag, sem verður 20. september nk. Einnig kemur fram hvernig myndin verður uppbyggð: Þegar Galifianakis hefur verið auðmýktur af gamanleikaranum Will Ferrell, og gert hann að athlægi, þá fer þáttastjórnandinn í ferðalag þar sem hann tekur viðtal við fullt af frægu fólki, til þess að bjarga andlitinu.
Aukerman mun leikstýra sem fyrr, en hann hefur leikstýrt öllum Milli tveggja burkna, og hann og Galifianakis skrifa handritið saman.
Síðasta verkefni Akerman fyrir Netflix var Michael Bolton’s Big Sexy Valentine’s Day Special, sem frumsýnd var 2017.