Í gær var ný íslensk kvikmynd, Undir halastjörnu, frumsýnd, en leikstjóri og handritshöfundur er Ari Alexander Ergis Magnússon. Kvikmyndir.is var á staðnum og mælir með myndinni.
Myndin er byggð á sönnum atburðum af hinu svokallaða líkfundarmáli í Neskaupsstað árið 2004. Kvikmyndin hefst á fallegum tökum sem eiga að gerast í Eistlandi þar sem ung börn eru að leik, þar á meðal aðalsöguhetjan Mihkel og vinur hans Igor og vinkona þeirra, sem bæði eiga eftir að koma mikið við sögu síðar.
Spólað er fram í tímann og við sjáum þegar Mihkel og kærastan eru í einhverjum sæmilega saklausum erindagjörðum að sendast með tösku milli borga, en þá lendir Mihkel óvænt í því að þurfa að gleypa haug af eiturlyfjapökkum og fljúga með þá til Íslands. Kærastan styður hann í þessu, enda er barn á leiðinni virðist vera, og þau eru fjárþurfi.
Þegar til Íslands er komið taka Igor og tveir smákrimmar við honum, sem þeir Tómas Lemarquis og Atli Rafn Sigurðsson leika, og nú hefst átakanleg og löng bið eftir því að eitulyfin skili sér rétta leið niður úr Mihkel.
Leikur hinna eistnesku Paaru Oja og Kaspar Velberg eru til fyrirmyndar í myndinni, og eru þeir mjög trúverðugir sem æskuvinirnir tveir, og aðrir leikarar standa sig einnig með prýði. Litir, áferð og tónlist er sömuleiðis flott, og flæðið í myndinni er gott, jafnvel svo gott að maður var alveg tilbúinn að sitja enn lengur í bíó til að fá söguna allt til enda, þ.e. að fá réttarhöldin og lögreglurannsóknina líka.
En sjón er sögu ríkari, og það má hvetja fólk til að drífa sig í bíó!