Með/á móti – Chronicle

(Með/á móti er fastur liður á síðunni þar sem tveir stjórnendur með ólíkar skoðanir á tiltekinni bíómynd segja nákvæmlega það sem þeim finnst (helst í einni efnisgrein) og er undir notendum komið að velja þá hlið sem er raunsærri, skemmtilegri eða meira sannfærandi. En svo er alltaf séns á því að skoðun þín sé mitt á milli)

Tómas Valgeirsson vs. Þráinn Halldór Halldórsson

Chronicle hefur fengið frábæra dóma undanfarið en virðist sem svo að ekki allir séu jafn sáttir með myndina. Tommi skrifaði gagnrýni í síðustu viku þar sem hann gefur myndinni góða sjö-u, en Þráinn virðist ekki vera á sömu skoðun. Ég get lofað ykkur því að þessi umræða er margfalt skemmtilegri en Clash of the Titans, þó að titilinn sé eiginlega sá sami. Þannig að spurningin er bara sú, hver er sigurvegarinn?

Tómas segir:

Mér leist vel á Chronicle-trailerinn fyrirfram en rétt áður en ég settist niður til að horfa á hana fékk ég ofsalega leiðinlega tilfinningu vegna þess að ég vissi að ég væri að fara að horfa á „found footage“ mynd. Og þar sem sýnishornið gaf sterkt til kynna hvert sagan stefndi, þá fylltist ég ekkert bilaðslega miklu bjartsýni. Svo byrjaði þessi ræma og það komst strax til skila að leikstjórinn vissi hversu þreytt frásagnarformið var orðið og þess vegna reynir myndin að gera ýmislegt nýtt við það. Það virkar ekki alltaf, en það gerir það í langflestum tilfellum. Annað sem kom mér á óvart var trúverðuga persónusköpunin (ásamt frammistöðum sem ég keypti 100%), og það er alls ekki  erfitt að „skilja“ þær ákvarðanir sem helsta sögupersónan tekur, jafnvel þó þær gangi mjög langt. Svo er myndin heldur ekkert að sýna neinn tepruskap og verður dásamlega myrk á hárréttum stöðum í hinum svokallaða „third act,“ og til að gera gott enn betra er flæðið þétt og gerist hellingur á þessum 80-og-eitthvað mínútum. Ég segi að þetta sé ein af óvæntari myndum ársins!

Þráinn segir:

Chronicle er innihaldslaust unglingavæludrama. Þó svo að hugmyndin sé ansi svöl þá er útfærslan svo ógeðslega léleg að það er hreint út sagt ótrúlegt. Persónurnar eru vægast sagt hræðilegar (ég trúi því tæplega að ljótari útgáfan af Gossip Girl guggunni sé vídjóbloggari). Handritið (og myndin sjálf) er gjörsamlega hugmyndasnauð. Þegar félagarnir eru komnir í háloftin í fimmtánda sinn líður manni eins og myndin séu 3 klst þó svo að hún sé í raun 84 mínútur, sem verður að teljast vel af sér vikið, því aldrei áður hef ég farið á 84 mínútna mynd sem er svo yfirburða leiðinleg og langdregin. Leikararnir hafa greinilega lært ofleik í leiklistarskólanum og aðalsögupersónan er meira emo heldur en Köngulóarmaðurinn í Spider-Man 3. Ég gæti haldið svona lengi áfram en ég fæ upp í kok.
Satt best að segja er ég gríðarlega svekktur, þar sem trailerinn lúkkar vel og myndin var búin að fá góða dóma. Ég tilnefni Chronicle sem verstu mynd 2012 til þessa.

HVORU MEGIN VIÐ LÍNUNA ERT ÞÚ?