Í tvö ár hefur þriðja Men in Black myndin verið í framleiðslu án þess að fá einstaklega mikla umfjöllun eða mikið af útgefnu efni til að auka spennuna; sem samanstendur af nokkrum ársgömlum ljósmyndum af settinu og nýútgefnu plakati. Glöggur fréttamaður síðunnar Collider tók eftir undarlegu plakati í kvikmyndahúsi einu, sem innihélt heilan helling af smáum MIB3 letrum og myndaði þannig augljóslega andlit leikarans Tommy Lee Jones í líki persónunnar Agent K. Hann var svo góður að taka mynd af plakatinu og birta, en vonandi er ekki of langt í formlega útgáfu í betri gæðum frá Sony Pictures.
Myndin mun takast á við tímaflakk og fjallar hún um ferðalag Agent J. (Will Smith) til ársins 1969 til að hitta ungan Agent K. (Josh Brolin) og koma í veg fyrir hugsanlegan heimsendi. Sem betur fer eru flestir lykilmennirnir komnir aftur saman fyrir þriðju myndina: Barry Sonnenfeld situr aftur í leikstjórastólnum og auðvitað snúa þeir Smith og Jones aftur, með Rip Torn í eftirdragi. Annars stöðva nýgræðingarnir ekki með Josh Brolin, því ásamt honum mun Emma Thompson, Alice Eve og Bill Hader bætast við hópinn; en Hader mun koma fram sem sjálfur Andy Warhol. Í takt við seríuna verður handritið aftur skrifað af nýjum handritshöfundum; þar á meðal þeir David Koepp (Spider-Man, Panic Room) og Etan Cohen (Nei, ég skrifaði nafnið ekki vitlaust), sem skrifaði m.a. Tropic Thunder og Idiocracy.
Þó að seinni MIB myndin var ekki verðskuldað framhald og lítið sem ekkert er vitað um þá þriðju, þá er varla hægt að neita því að metnaðurinn bakvið hana er til staðar og það er ágætlega spennandi að vita af henni þarna úti. Men in Black 3 er sett á útgáfudaginn 25. maí á næsta ári, en það markar einnig tíu ára afmæli seinni myndarinnar.