Runaway Jury, nýjasta myndin sem gerð er eftir skáldsögu eftir John Grisham, hefur bæði bætt við sig og tapað mannskap. Naomi Watts, sem átti svo eftirminnilegan stórleik í nýjustu kvikmynd snillingsins David Lynch, Mulholland Drive, hætti skyndilega við að leika aðalkvenhlutverkið í myndinni. Hins vegar eru stórleikararnir goðsagnakenndu, þeir félagar Dustin Hoffman og Gene Hackman báðir komnir um borð. Aðalhlutverk myndarinnar er í höndum John Cusack, en hún fjallar um lögfræðing einn sem er að reka fordæmisskapandi mál gegn byssuframleiðendum í Bandaríkjunum. Hann kemst síðan að því að búið er að eiga við kviðdóminn í málinu.

