Meira um framhaldsmyndir

Já, það er rétt, við erum aftur komin í umræðu framhaldsmyndanna. Búið er að gefa grænt ljós á þriðju Final Destination myndina. Þið lásuð rétt, þriðju myndina í þessari stefnulausu seríu þar sem ekkert gengur út á annað en hver fær flottasta dauðann. Ekki er búið að ræða við neinn tiltekin leikara til að snúa við (voru annars einhverjir eftir á lífi? Þið verðið að fyrirgefa hversu mikið seinni myndin hvarf úr minninu hjá mér), það eina sem er staðfest er að New Line vilja fá meira af því sama. Reyndar græddu fyrri myndirnar ekkert mikið magn af seðlum, en miðað við framleiðslukostnaðinn taldist það nóg. Ég verð að sleppa því að vera hlutlaus í þessari frétt og vona innilega að þetta sé Final Destination mynd sem stendur undir orðinu ‘Final…’

Svo er jafnframt búið að staðfesta framhaldi á Underworld, sem kom út á síðasta ári. Það ætti nú varla að koma mörgum á óvart – þ.e.a.s. þeim sem sáu fyrri myndina – enda virtist endir hennar gefa meira en í skyn um að sagan ætti eftir að halda áfram. Upphaflega var áætlað að hafa þetta að þríleik, sem inniheldur þá staðreynd að þriðja myndin ætti að vera forsagan (prequel), og er það ennþá undir grænu ljósi. En í bili er fókusað meginlega á annan hlutann. Kate Beckinsale hefur að sjálfsögðu skrifað undir þátttöku, sem og Scott Speedman. Fátt annað er vitað um þetta verkefni, en planað er að myndin komi út um haustið 2005.