Meira sprell frá Suðurgarðsmönnum

Höfundar South Park þáttanna, Trey Parker og Matt Stone (sem léku m.a. í BASEketball – sem er skelfilega vanmetin grínmynd – en nóg um það frá mér) eru loksins farnir að leggja höfuðin meira í bleyti, og munu nú á næstunni vera í miðri framleiðslu á nýrri teiknimynd í fullri lengd. Nei, þetta er ekki framhald af South Park: Bigger, Longer and Uncut (því miður), heldur mun þetta vera hasar-teiknimyndarræma í anda þeirrar myndar og ber heitið TEAM AMERICA, og mun fjalla um einhvers konar ólíklegar ofurhetjur sem berjast gegn hryðjuverkum. Og búist er við að myndin verði álíka móðgandi, orðljót, smekklaus og South Park myndin. Og hver veit nema nokkur lög bregða fyrir? (smá ágiskun)
Parker og Stone hafa fengið nákvæmlega sama fjármagn frá Paramount og þeir notuðust við með hina myndina, og ætla þeir að gera það sama og áður: þ.e.a.s. leikstýra, skrifa, framleiða og ljá mest allar raddirnar.
Reyndar eru aðstandendur Paramount svo spenntir fyrir þessu og hvernig framleiðslan hefur gengið hingað til að þeir ætla að reyna að flýta verkefninu fyrir svo það nái að skila sér í kvikmyndahús erlendis þann 22. október. Sniðugt.