Meira flipp frá Pegg

Breski grínistinn Simon Pegg, maðurinn sem m.a. er á bakvið drepfyndnu Spaced-þættina og nú nýlega hina óvæntu Shaun of the Dead, hefur ákveðið að snúa sér að hasarmyndum. Pegg sagði í viðtali við breska tímaritið ZOO að hann ætlar að gera það sama við spennumyndir og Shaun of the Dead gerði fyrir hrollvekjurnar. Verkefnið hefur ekki enn hlotið titil en sagt er að grunnhugmyndin verði einhvers konar blanda af The Wicker Man og Hard Boiled, en þó mun þetta allt vera tiltölulega svipað og Shaun; semsagt grín og glens verður til staðar og mjög líklegast verður gert grín að formúlunni, en hasarinn fær samt að láta ljós sitt skína.
Pegg var einnig spurður út í framhald af Shaun, og hann viðurkenndi að sú hugmynd hafði verið tekin til mikilla pælinga, en hann segist vera hræddur um áhættuna. “We did play with the idea of a sequel, but sequels can damage the reputation of the original.“ – eins og hann sjálfur orðar svo skemmtilega. Þessi ónefnda hasar-grínmynd er hins vegar bara í skipulagningu, og varla er handrit komið fullkomlega í ljós, en myndin er áætluð að skella sér í bíóin árið 2006.