Meira af Marvel-æðinu

Forstjóri Marvel-kvikmyndasamsteypunnar, Avi Arad, er búinn að tilkynna nokkrar afar athyglisverðar fréttir sem munu örugglega gleðja trausta myndasöguunnendur.
Fyrst og fremst tilkynnti hann að næsta plan þeirra yrði Silver Surfer bíómynd, en þetta er einmitt enn eitt fyrirbærið úr smiðju Stan’s Lee.
Þessi ákvörðun var tekin fyrir skömmu meðan aðstandendur voru að leggja lokahönd á Fantastic Four, sem kemur út þetta sumar.


En þetta er ekki það stærsta í fréttum sem Marvel hefur upp á að bjóða. En samkvæmt viðtali við Sci-Fi Wire sagði leikstjórinn Sam Raimi að búið væri að breyta plani Spider-Man seríunnar. Það vill einmitt þannig til að Sony Pictures eru alltof hungraðir fyrir seðlum og mögulegt er núna að myndirnar verði – ótrúlegt en satt – sex að talsins.

Ákveðið var upphaflega að klára söguna með þriðju myndinni, sem á að skila sér sumarið 2007, en fólkið á bakvið vélarnar sjá betri möguleika í stærri og breiðari seríu. Raimi er a.m.k. óvenju bjartsýnn á þessu og segist hann (á þessum tímapunkti) eindregið vilja leikstýra þeim öllum ef hann fengi að ráða (og ef áhuginn væri jafn heitur og hann er núna).
Amy Pascal, einn framleiðandi Spider-Man myndanna, er sömuleiðis bjartsýn yfir þessum 6-mynda samningi, þó svo að ekkert hefur verið rætt um/við Tobey Maguire eða Kirsten Dunst, en skv. þeirra samningi var þeim bara ætlað að leika í einni mynd í viðbót.