Kvikmyndin Mean Girls, sem gamanleikkonan og handritshöfundurinnn Tina Fey vann upphaflega upp úr skáldsögu Rosalind Wiseman, Queen Bees and Wannabes, er orðin hálfgert afþreyingarveldi eins og fjallað er um í grein bandaríska dagblaðsins The New York Times.
Tekjur upphaflegu myndarinnar í bíó, sem frumsýnd var árið 2004, námu litlum 130 milljónum Bandaríkjadala eða rúmum átján milljörðum íslenskra króna og aðalleikkonur myndarinnar urðu allar stórar stjörnur á einni nóttu, leikkonur eins og Lindsay Lohan og Rachel McAdams.
Árið 2018 var frumsýndur á Broadway í New York Mean Girls-söngleikur einnig eftir Fey og með tónlist eiginmanns hennar Jeff Richmond. Og núna er komin í bíó dans- og söngvamynd byggð á þessum fyrri útgáfum af Mean Girls, eftir handriti Fey.
Í nýju myndinni fáum við að fylgjast með persónunum og sögunni sem allir sem séð hafa Mean Girls kannast við, að viðbættum söng og dans: Cady, sem Angourie Rice leikur, er ný í skólanum og fer að vera með þeim Janis, sem Auliʻi Cravalho leikur, og Damien, sem Jaquel Spivey leikur, sem eru útundan og alls ekki hluti af aðal genginu í skólanum. Þau gera bandalag um að ná sér niðri á hinni meinfýsnu Regina George, sem Reneé Rapp leikur, og gervigenginu (e. The Plastics), þar til Cady sogast yfir til óvinarins.
Þegar nýja stelpan í skólanum, Cady Heron, gerir þau mistök að verða skotin í Aaron Samuels, lendir hún í skotlínu Regina George, leiðtoga aðal stelpugengisins í skólanum sem kallast "The Plastics". Á sama tíma og Cady gerir sig klára í að berjast við aðal rándýrið með ...
Fey og Tim Meadows endurtaka leik sinn frá því í upphaflegu myndinni sem Ms. Norbury og Mr. Duvall, og við fáum einnig að kynnast stærðfræðiteyminu og fleiri góðkunningjum.
Eina reynslan
„Menntaskólinn er eina bandaríska sameiginlega reynslan sem allir eiga,“ segir Lorne Michaels, sem framleiðir nýju myndina ásamt Fey og fleirum. Hann og Fey hafa unnið að öllum fyrrnefndum útgáfum af Mean Girls, fyrir utan sjónvarpsmyndina frá 2011 sem hlaut dræmar viðtökur.
Eins og segir í greininni þá hefur ýmislegt breyst á tuttugu árum. Sögusagnir dreifast nú á samfélagsmiðlum og myndböndum er dreift á TikTok. Þá á Carr þjálfari ekki í kynferðislegu sambandi við ólögráða nema og ýmislegt hefur breyst hvað kynja – og kynþáttaumræðu varðar. Mean Girls er því í stöðugri þróun eins og New York Times fjallar um.
Hélt að kennarinn yrði aðal
Spurð að því hvað hún sá fyrir sér upphaflega þegar hún las grein um bók Wiseman og sambönd ungmenna, segir Fey að hún hafi séð fyrir sér að myndin myndi hverfast um kennarann fyrst og síðast. En eftir því sem hún hafi lesið meira hafi hún séð að stelpurnar voru áhugaverðasti hluti sögunnar. Slæm hegðun þeirra sem var einnig fyndin á klókan siðspilltan hátt var eitthvað sem hægt var að gera sér mat úr.