Nú gefst Íslendingum færi á að sjá hinn grindhoraða Matthew McConaughey í sínu besta hlutverki hingað til sem alnæmissjúklingurinn Ron Woodroof í kvikmyndinni Dallas Buyers Club.
Myndin er tilnefnd til 6 Óskarsverðlauna og fékk 2 Golden Globe verðlaun fyrir besta leikarann í aðalhlutverki (McConaughey) og besta leikarann í aukahlutverki (Jaret Leto).
Kvikmyndin fjallar um Ron Woodroof, sem fær þau hörmulegu tíðindi að hann sé með alnæmi og eigi bara 30 daga eftir ólifaða. Hann stelur AZT-lyfjum í von um að þau vinni bug á sjúkdómnum, en meðferðin ber engan árangur. Hann ákveður því að leita óhefðbundinna lækninga og smyglar ósamþykktum lyfjum til Bandaríkjanna. Hann slæst í hópinn með öðrum alnæmissjúklingi, Rayon, og hefst handa við að selja lyfin til vaxandi fjölda fólks sem getur ekki beðið eftir að heilbrigðisyfiröld komi því til bjargar.
Dallas Buyers Club, verður frumsýnd á föstudaginn, 31. janúar. Myndin verður sýnd í Laugarásbíói, Háskólabíói og Borgarbíó Akureyri.