Masterminds ekki frumsýnd

Vonandi varstu ekki farin/n að hlakka of mikið til að sjá nýjustu mynd Zach Galifianakis og Kristen Wiig, Masterminds, því búið er að aflýsa frumsýningu hennar!

masterminds_2-620x413

Framleiðslufyrirtæki myndarinnar, Relativity Media hefur sótt um gjaldþrotaskipti, og það hefur því ekki efni á að markaðssetja myndina. Hún hefur því verið tekin af útgáfuátætlu fyrirtækisins.

Samkvæmt vefsíðunni The Hollywood Reporter staðfesti talsmaður fyrirtækisins, sem er eins og fyrr sagði gjaldþrota og er til sölu,  þessa frétt án þess að upplýsa um ástæðuna, en heimildir vefsíðunnar herma að ástæðan sé að engir sjóðir séu fyrir hendi til að setja í markaðssetninguna. Án markaðssetningar, auglýsinga og annarra kynninga, er hætt við að aðsókn yrði lítil.

Skuldir og skuldbindingar fyrirtækisins nema nú meira en einum milljarði Bandaríkjadala eða jafnvirði 133 milljarða íslenskra króna.

Relativity hefur verið atkvæðamikið í kvikmyndabransanum og því eiga margið mikið undir því að fyrirtækið haldi áfram rekstri.

Aðrar myndir sem hafa orðið fyrir áhrifum af vandræðum Relativity eru endurræsing The Crow, sem og skauta-gamanmyndin The Bronze. Ennfremur spennutryllirinn Autobahn, en hún er stjörnum prýdd, með Felicity Jones, Nicholas Hoult, Anthony Hopkins og Ben Kingsley, í helstu hlutverkum.

Nokkrar myndir verða ekki fyrir áhrifum gjaldþrotsins, eins og t.d. The Transporter Refueled, sem frumsýnd verður í september.