Framleiðsla á sjöundu Star Wars-myndinni er komin á fullt, en í dag opinberaði stórfyrirtækið Disney mynd af leikaranum Mark Hamill og Mikka Mús þar sem þeir munda geislasverðin frægu. Myndin er auglýsing fyrir Disney-garðinn, en um næstu helgi verður garðurinn helgaður Star Wars-myndunum og mun Hamill verða viðstaddur hátíðarhöldin.
Hamill lék, eins og flestum er kunnugt, Luke Skywalker, eða Loga geimgengil, í fyrstu þremur Star Wars-myndunum. Leikarinn mun endurtaka hlutverk sitt í sjöundu myndinni sem verður frumsýnd á næsta ári.
Hamill hefur lítið sést á hvíta tjaldinu hin síðari ár en þeim mun meira hefur heyrst í honum. Hann hefur léð hinum ýmsu karakterum rödd sína en frægastur þeirra er án efa Jókerinn í Emmy-verðlaunuðum teiknimyndaþáttum um Batman sem gerðir voru á árunum 1992 til 1995. Þar að auki hefur hann leikið gestahlutverk í hinum ýmsum sjónvarpsþáttum.
Eins og flestum er kunnugt er LucasFilm nú í eigu Walt Disney og er áætlað að frumsýna Star Wars VII þann 18. desember, 2015.