Mannlega margfætlan 3 tekin í vor

Nú kætast eflaust margir, en þriðja Human Centipade myndin er að fara í framleiðslu og hefjast tökur myndarinnar í maí nk.

 

Kæra sem átti að koma í veg fyrir þriðju Centipede hrollvekjuna hefur verið felld niður, samkvæmt Ew.com, en kæran gekk út á það að höfundur myndarinnar, Tom Six, og framleiðsluteymi hans, áttu í baráttu við aðalleikara myndarinnar, Dieter Laser, en Six sagði að hann væri kominn með útblásið egó – það hefði vaxið í „hlægilega stærð“ og hann hefði verið farinn að krefjast óásættanlegra breytinga á handriti myndarinnar, áður en hægt væri að hefja vinnu við mynd númer þrjú. Við það sætti Tom Six sig ekki.

Sagan segir að Laser hafi yfirgefið verkefnið aðeins nokkrum vikum áður en tökur áttu að hefjast, sem síðar leiddi til kærumálsins. Nú segir EW að málsaðilar séu búnir að sættast og myndin fari í gang í maí.

Að auki þá er sagt að Laser komi til með að leika aðra persónu en hinn klikkaða skurðlækni sem hann hefur hingað til leikið í fyrstu tveimur myndunum. Samt er um að ræða aðalhlutverk og aðalleikari úr mynd númer 2, Laurence R. Harvey, verður einnig innanborðs í stóru hlutverki í þessari mynd sem er „með sögu úr óvæntri átt“, eins og meðframleiðandinn Ilona Six, segir.

Fyrir þá sem hafa heillast af mannlegu margfætlumyndunum, eru það væntanlega góðar fréttir að Laser verði með, en aðrir kæra sig væntanlega kollótta, enda ekki hrifnir af samansaumuðum líkömum að snæða úrganginn úr hverjum öðrum.