Ný stikla fyrir spennumyndina Lockout er dottin á netið. Myndin kemur úr (verk)smiðju Luc Besson, og er með þeim Guy Pearce og Maggie Grace í aðalhlutverkum. Sagan er eitthvað á þá leið að dóttir forsetans (Grace) er í geimferð (þetta er í framtíðinni) að skoða nýja öryggisgeimfangelsið, sem að sjálfsögðu er ekki nógu öruggt, og fangarnir gera uppreisn. Þá eru góð ráð dýr og því semja stjórnvöld við öryggisfanga sem situr (ranglega) inni fyrir föðurlandssvik, og bjóða honum frelsi sitt ef hann getur komið dótturinni út lifandi.
Myndin virðist vera drullu skemmtileg! Gaman að sjá Pearce í töffaraham, hann er vanmetinn leikari sem sést alltof lítið af. Myndi kannski ekki segja það sama um Maggie Grace en hún er allavega góð í að týnast (LOST, Taken). Hasarmyndirnar sem Luc Besson skrifar og framleiðir skjóta stundum dálítið framhjá markinu, en þessi verður vonandi fínasta skemmtun.
Já í sýnishorninu virðist myndin heita MS One: Maximum Security, en það er sennilega bara franska heitið. Lock-out var hún allavega kölluð um daginn þegar fyrsta stiklan kom. Nú þegar ég hugsa um það, þá var hún betri. Tékkaðu líka á henni.