Búið er að ráða í helstu hlutverk í framhaldsmynd Bad Moms, sem sló óvænt í gegn í júlí á síðasta ári, með tekjur upp á 113 milljónir bandaríkjadala, en kostnaðurinn nam einungis 20 milljónum dala.
Með hlutverk mæðranna í fyrri myndinni fóru þær Mila Kunis, Kristen Bell og Kathryn Hahn, en myndin fjallaði um þrjár þreyttar mæður sem ákveða að gera eitthvað í málunum og öðlast frelsi á ný. Nýja myndin heitir Bad Moms Christmas.
Allar aðalleikkonurnar úr fyrri myndinni mæta til leiks á ný, en til viðbótar hafa verið ráðnar þær Susan Sarandon, Cheryl Hines og Christine Baranski til að leika mæður þeirra Hahn, Bell og Kunis.
Að auki munu Peter Gallagher og Justin Hartley bætast í hópinn. Þau Wanda Sykes, Jay Hernandez og David Walton mæta aftur til leiks úr fyrri myndinni.
Framhaldsmyndin fjallar um Amy, sem Kunis leikur, Kiki, sem Bell leikur, og Carla, sem Hahn leikur, sem þurfa að þola nærveru útúrstressaðra mæðra sinna yfir jólahátíðina. Jon Lucas og Scott Moore leikstýra og skrifa handrit að nýju myndinni, eins og þeirri fyrri.
Tökur á Bad Moms Christmas fara fram í Atlanta og stefnt er að frumsýningu í nóvember á þessu ári.
Ekkert hefur frést af hliðarmyndinni Bad Dads, þó að menn hafi verið að velta fyrir sér að gera slíka mynd og frumsýna hana á þessu ári einnig.
Óskarsverðlaunaleikkonan Sarandon sást síðast í sjónvarpsþáttunum Feud: Bette and Joan, í hlutverki kvikmyndastjörnunnar Bette Davis, en Hines lék síðast í gamanþáttunum frábæru Curb Your Enthusiasm og Son of Zorn. Baranski lék í Mamma Mia! og sjónvarpsþáttunum The Big Bang Theory.