Madagascar strandaglóparnir í Evrópu

Sérkennilegi dýragarðshópurinn frá New York snýr aftur á næsta ári til að kitla hláturtaugarnar á ný og í þetta sinn gerist ævintýrið um hinar ýmsu evrópuborgir á leið þeirra aftur til New York. Aðalleikarar fyrri myndanna snúa aftur í sínum hlutverkum fyrir Madagascar 3: Europe’s Most Wanted ásamt leikstjóranum Eric Darnell og hefur hún Frances McDormand bæst við sem frönsk lögreglukona sem eltist við dýrahópinn kunnuglega. Hér fyrir neðan er fyrsta stikla myndarinnar:

Satt að segja vissi ég ekki að þriðja myndin væri í bígerð fyrr en ég rakst á stikluna, finnst einhverjum öðrum eins og myndin lítur ódýrari út en fyrstu tvær? Það sem kemur mest á óvart er að Noah Baumbach skrifaði handrit myndarinnar, en hann var tilnefndur til óskarsverðlauna fyrir The Squid and the Whale handritið. Hann skrifaði einnig hina frábæru fjölskyldumynd Fantastic Mr. Fox og The Life Aquatic with Steve Zissou.