Lundgren segir Cage, Snipes og Chan efsta á lista

Harðhausaserían The Expendables hefur hingað til verið afar vel heppnuð fyrir sinn hatt, blanda af gömlum og góðum hasarmyndaleikurum í myndum sem eru skemmtileg blanda af hasar og gríni. Í síðustu mynd komu þeir Bruce Willis og Arnold Swarzenegger meira við sögu en í fyrri myndinni, en auk þess bættust við eðalnaglar eins og Chuck Norris, Jean-Claude Van Damme og Scott Adkins.

Eins og við höfum sagt frá hér á síðunni þá hefur framleiðandi myndarinnar, og hugmyndasmiður,  Sylvester Stallone verið að bera víurnar í ýmsa nýja leikara, eins og Jackie Chan og Nicolas Cage, en eflaust myndu margir fagna ákaflega ef það gengi upp að fá þá tvo í myndina.

Hinn sænskættaði kvikmyndaleikari og efnaverkfræðingur, Dolph Lundgren, sem hefur leikið hetjuna Gunnar Jensen í báðum myndum, ræddi nýlega við vefsíðuna MovieWeb og sagði að framleiðendur væru enn að þreifa fyrir sér varðandi fleiri stórleikara fyrir myndina, og þrjú nöfn væru þar efst á blaði. „Ég veit ekkert fyrir víst,“ segir Lundgren í viðtalinu. „Ég hef heyrt að þeir vilji fá Wesley Snipes og þeir vilja Jackie Chan. Einnig hef ég heyrt af því að þeir vilji fá Nicolas Cage. En við vitum í raun ekki alveg nógu vel ennþá hvað er í gangi.“

Handritið ku enn vera í smíðum fyrir myndina, en sagt er að tökur geti hafist innan fárra mánaða. Lundgren staðfestir að verið sé að vinna í handritinu og tökur hefjist líklega í haust.

Spurður um samstarf sitt við aðal manninn, Stallone, í sambandi við þróun á persónu hans í myndinni, Gunnari, segir Lundgren að hann leyfi Stallone að ráða í byrjun. „Ég læt hann alveg um að leggja línurnar. Hann þekkir mig bæði sem leikara og persónu, af því við höfum unnið það mikið saman ( samstarf þeirra nær aftur til myndarinnar Rocky 4 ). Þannig að ég les svo handritið, og bæti kannski nokkrum athugasemdum við um hitt og þetta. Hann þekkir alla leikarana, og það eru svo margar persónur sem koma við sögu. Allir vilja hafa sitt að segja, og koma eins mikið við sögu og hægt er. Þannig að hann reynir að koma til móts við það. Hann hefur unnið frábært starf hingað til. Og ég treysti honum,“ sagði Lundgren við MovieWeb.

Búist er við að The Expendables verði frumsýnd sumarið 2014.