Spennutryllirinn Olympus Has Fallen var hin þokkalegasta mynd, spennandi og skemmtileg. Í myndinni er sagt frá fyrrum leyniþjónustumanni í þjónustu forsetans, sem berst við hryðjuverkamenn í Hvíta húsinu ( ekki rugla henni saman við myndina White House Down sem einnig var hin fínasta skemmtun en með mjög svipaðan söguþráð og Olympus ).
Báðar myndir fengu fína aðsókn, en mynd Antoine Fuqua, Olympus Has Fallen, þénaði meira í Bandaríkjunum og var ódýrari í framleiðslu, sem þýðir að hún fékk grænt ljós á framhaldsmynd, en White House Down ekki. Titill framhaldsmyndarinnar er London Has Fallen.
Fuqua mun ekki mæta aftur í leikstjórastólinn, en The Hollywood Reporter segir að búið sé að finna arftaka hans í stólnum og það sé Fredrik Bond, sem leikstýrði Charlie Countryman, en hann ku eiga í nánum viðræðum við Millennium framleiðslufyrirtækið.
Áætlað er að hefja tökur í október nk. en það má ekki seinna vera ef á að takast að frumsýna myndina í október á næsta ári, eins og áætlað er.
Aðalleikarar Olympus Has Fallen, Gerard Butler, Aaron Eckhart og Morgan Freeman, munu allir mæta aftur til leiks í framhaldsmyndinni.
Christian Gudegast (A Man Apart) og Olympus Has Fallen handritshöfundarnir Katrin Benedikt ( frá Íslandi ) og Creighton Rothenberger (þau skrifuðu einnig The Expendables 3) munu skrifa handrit London Has Fallen í sameiningu.
Í framhaldsmyndini er fylgst með því þegar leyniþjónustumaðurinn Mike Banning ( Gerard Butler ), Bandaríkjaforseti Benjamin Asher ( Eckhart ) og þingforsetinn Allan Trumbull ( Freeman) fara til Bretlands til að vera við útför forsætisráðherra Bretlands í Lundúnum. Þar komast menn á snoðir um að ráða eigi helstu leiðtoga heimsins af dögum. Banning og Asher þurfa að vinna með MI-6, bresku leyniþjónustunni, til að bjarga valdamestu mönnum heims.
London Has Fallen verður frumsýnd 2. október árið 2015.