London fellur leikstjóri ráðinn

Spennutryllirinn Olympus Has Fallen var hin þokkalegasta mynd, spennandi og skemmtileg. Í myndinni er sagt frá fyrrum leyniþjónustumanni í þjónustu forsetans, sem berst við hryðjuverkamenn í Hvíta húsinu ( ekki rugla henni saman við myndina White House Down sem einnig var hin fínasta skemmtun en með mjög svipaðan söguþráð og Olympus ).

Gerard-Butler-on-Olympus-Has-Fallen-poster

Báðar myndir fengu fína aðsókn, en mynd Antoine Fuqua, Olympus Has Fallen, þénaði meira í Bandaríkjunum og var ódýrari í framleiðslu, sem þýðir að hún fékk grænt ljós á framhaldsmynd, en White House Down ekki. Titill framhaldsmyndarinnar er London Has Fallen.

Fuqua mun ekki mæta aftur í leikstjórastólinn, en The Hollywood Reporter segir að búið sé að finna arftaka hans í stólnum og það sé Fredrik Bond, sem leikstýrði Charlie Countryman, en hann ku eiga í nánum viðræðum við Millennium framleiðslufyrirtækið.

Áætlað er að hefja tökur í október nk. en það má ekki seinna vera ef á að takast að frumsýna myndina í október á næsta ári, eins og áætlað er.

Aðalleikarar Olympus Has Fallen, Gerard Butler, Aaron Eckhart og Morgan Freeman, munu allir mæta aftur til leiks í framhaldsmyndinni.

Christian Gudegast (A Man Apart) og Olympus Has Fallen handritshöfundarnir Katrin Benedikt ( frá Íslandi ) og Creighton Rothenberger (þau skrifuðu einnig The Expendables 3) munu skrifa handrit London Has Fallen í sameiningu.

Í framhaldsmyndini er fylgst með því þegar leyniþjónustumaðurinn Mike Banning ( Gerard Butler ), Bandaríkjaforseti Benjamin Asher ( Eckhart ) og þingforsetinn Allan Trumbull ( Freeman) fara til Bretlands til að vera við útför forsætisráðherra Bretlands í Lundúnum. Þar komast menn á snoðir um að ráða eigi helstu leiðtoga heimsins af dögum. Banning og Asher þurfa að vinna með MI-6, bresku leyniþjónustunni, til að bjarga valdamestu mönnum heims.

London Has Fallen verður frumsýnd 2. október árið 2015.