Sjónvarpsþættirnir Breaking Bad njóta gríðarlegra vinsælda um allan heim. Það eru einungis tveir þættir eftir af síðustu seríu þáttanna og verða þeir lengdir í 75 mínútur. Þættirnir hafa ávallt verið í um 45 mínútur og er því um 30 mínútna lengingu að ræða.
Einn af handritshöfundum Breaking Bad ljóstraði þessu upp á Twitter síðunni sinni, að síðustu tveir þættirnir sem kallast „Granite State“ og „Felina“ verði 75 mínútur hvor, með auglýsingarhléum. Þannig eiga aðdáendur von á allt að klukkustundar spennu og drama.
Þættirnir hafa vakið mikla athygli og hafa hlotið fjölmörg verðlaun. Árin 2008-10 hlaut Bryan Cranston þannig Emmy verðlaunin fyrir besta leik í alvarlegu aðalhlutverki og árið 2010 hlaut Aaron Paul Emmy verðlaun fyrir besta leik í alvarlegu aukahlutverki. Ekki aðeins hafa leikarar hlotið verðlaun. Mörgum sinnum hafa þættirnir verið tilnefndir og hlotið verðlaun fyrir sjónvarpsgerð, alls einum 58 sinnum og hafa hlotið 26 sinnum verðlaun í 6 flokkum.