25 ára meðferðardrottningin Lindsay Lohan mun að öllum líkindum leika stórstjörnuna Elizabeth Taylor fyrir sjónvarpsstöðina Lifetime, en Taylor lést á síðasta ári. Myndin ber nafnið ,,Elizabeth & Richard: A Love Story“. Myndin mun vera byggð á hjónaböndum Elizabeth Taylor og Richard Burton, en þau voru gift tvisvar frá 1964 – 1974 og 1975-1976. Lifetime og Lohan eru sögð vera afar nærri því að ná samkomulagi.
Lohan er ekki alveg reynslulaus þegar kemur að því að leika stórstjörnur, en hún sat fyrir sem Marilyn Monroe í Playboy tímaritinu sem kemur út nú í febrúar. Þessi ákvörðun Lifetime um nálgast Lohan fyrir hlutverkið hefur hlotið gagnrýni vestanhafs, en Lifetime markaðssetur sig sem sjónvarpsrás fyrir konur og því er um sjónvarpsmynd að ræða. Aðdáendur stöðvarinnar eru ósáttir við að manneskja með vandræðaferil líkt og Lohan sé látin leika stórstjörnu eins og Elizabeth Taylor.
Því er ljóst að Lohan er að taka barnaskref aftur í kvikmyndabransann og verður fróðlegt að fylgjast með því hvort hún komi sér yfir í stórmyndirnar aftur. Lohan er sæmilegasta leikkona sem var allavega fær um að halda kvikmyndum uppi með leik sínum (sbr. Mean Girls) áður en ferillinn fór í súginn.