Kvikmyndaleikarinn og Inception stjarnan Leonardo DiCaprio segist hafa lagt mikið á sig til að hafa áhrif á Robert De Niro, þegar hann þurfti að mæta í áheyrnarprufu til De Niro, þegar hann var 16 ára gamall. Hann ákvað á endanum að reyna að vera ógnandi í prufunum.
Hann segir: „Ég var 13 ára gamall þegar ég sá De Niro fyrst á hvíta tjaldinu. Pabbi hafði farið með mig á Midnight Run í bíó. Rétt áður en myndin byrjaði , benti hann á skjáinn og sagði: „Langar þig að verða góður leikari? Þessi leikari er flottur!“.
Þremur árum síðar var ég kominn í áheyrnarprufur fyrir myndina This boy´s life, sem var fyrsta kvikmyndahlutverk mitt, og ég vissi að það var þá þegar búið að ráða De Niro í myndina. Þannig að ég horfði á eins margar De Niro myndir og ég gat til að undirbúa mig. Og ég spurði mig í sífellu, „hvaða eiginleika myndi De Niro kunna að meta í mér? Og þá fattaði ég það – Ógnun.“
Aðspurður segir Leonardo að honum líki vel að vinna með leikstjóranum Martin Scorsese af því að myndir hans séu listaverk. DiCaprio hefur unnið með Scorsese að fjórum myndum.
Leikarinn sagði í samtali við FHM tímaritið: „Að vinna með fólki eins og Scorsese og að horfa á sígildar kvikmyndir sem eru hrein listaverk, ég vil ekki eyða tíma mínum í eitthvað sem ekki á eftir að endast. Ég vil vinna að verkefnum sem eru sérstök og einstök og ekki lík neinum öðrum.“